141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:25]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Forseti. Varðandi smálánin held ég að eigi ekki að gera lítið úr því að verið er að taka á þeim með tvíþættum hætti, annars vegar með því að setja sérstakt þak á kostnaðinn. Það er auðvitað alveg ljóst að hann skreppur gríðarlega saman borið saman við mörg þau dæmi sem maður hefur séð og eru auðvitað yfirgengileg. Ég hef séð útreikninga á raunverulegum lánskjörum úr þessum heimi þar sem voru 475% vextir á ári í einu tilviki, í öðru tilviki 730% vextir á ári og þar fram eftir götunum.

Ég er ekki eins kunnugur því hversu hart þau hafa komist upp með að ganga fram gagnvart því að skuldfæra gjaldfallnar afborganir og annað því um líkt, en maður hefur heyrt þessar sögur. Ég hef spurt fulltrúa bankanna að því og þeir hafa nú dregið það í efa, að minnsta kosti að hrikalegustu sögurnar væru réttar sem verið hafa á kreiki í þeim efnum, en hvað um það.

Annars vegar tökum við þá á þessu svona og setjum þetta í skikk þannig að það eru alla vega ekki algjör okurkjör sem þarna eru boðin. En auðvitað verður að hafa í huga að hér er þá um bráðabirgðalánveitingu til mjög skamms tíma að ræða, að því marki sem þessi starfsemi verður til áfram.

En við tökum auðvitað ekki síður á þessum málum með því að fella þau undir lög um neytendalán þannig að ákvæði um greiðslu, lánshæfismat, upplýsingaskyldu og allt það verði virk. Það mun auðvitað ekki síður þurfa að setja ramma sem þessi fyrirtæki þurfa að rúma starfsemi sína innan.

Ég vona að með þessu sé gengið sæmilega rösklega til verks í því að koma þessum málum í ásættanlegt horf.