141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að stuðla að kynningu á íslenskum listum erlendis og tryggja það að íslenskir listamenn og þeir sem starfa í þeim geira hér komist einmitt í kynni við alþjóðasamhengið. Það er svo mikilvægt í þeim geira að kynnast ólíkum straumum og stefnum. Og á síðustu árum, raunar ekki bara á síðustu árum, auðvitað hefur það verið alla tíð að Íslendingar hafa líka verið að færa menningarstrauma út og alveg frá því að við skrifuðum sögurnar og fluttum þær út. Það má því segja að við höfum alla tíð haft þá trú á okkur og þá menningarlegu sjálfsmynd að við hefðum eitthvað fram að færa til heimsmenningarinnar, og ég held að við höfum það. En það skiptir máli að við höldum því áfram.

Það hefur orðið heilmikil sprenging í starfsemi þeirra kynningarmiðstöðva sem ég vísaði í áðan. Við höfum reynt að styðja við þær eftir fremsta megni. Ég held að þar væri áhugavert fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd að kynna sér öll þau verkefni sem þar er verið að standa að í kynningu á íslenskum listum úti um heim, fyrir utan Frankfurtar-verkefnið sem var í fyrra og var náttúrlega alveg feikilega vel heppnuð menningarkynning á Íslandi. Það sást á bókamessunni 2012 að Ísland vakti ekki minni athygli en 2011 þrátt fyrir að vera ekki í neinu formlegu hlutverki því að það sem gert var síðast var gert af slíkri fagmennsku — af því að verið var að tala um fagmennsku — að sá orðstír lifði enn.

Ég þakka að öðru leyti hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni og ég veit að þingið á eftir í meðförum sínum að bæta þetta plagg og gera það betra.