141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:55]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að reynslan verður að skera úr um það hvernig tekst til með þessa breytingu. En ég er alveg sannfærð um að við erum á réttri leið með því að gera þessa breytingu.

Það er alveg ljóst að með því að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneytið er þessi ríkisstjórn að gera umhverfismálum og umhverfisþætti hærra undir höfði en gert hefur verið. Það sem við viljum reyna, með þeirri skipan sem hér er verið að mæla fyrir, er að tryggja betur sambúð atvinnumála og umhverfismála þannig að ekki verði farið með þau mál eins og um andstæður sé að ræða.

Við teljum því að þessu máli sé best fyrirkomið með þeirri leið sem við erum að fara þannig að alla tíð sé tryggt að þau sjónarmið sem við viljum að sé gert hátt undir höfði og höfum gert með þessari breytingu séu í fullu gildi og verði tryggð með skipan þeirrar samstarfsnefndar sem hér er verið að leggja til og þeim breytingum sem verið er að gera á ráðgjafarnefnd stofnunarinnar.