141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

endurmat á aðildarumsókn að ESB.

[10:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt, við hæstv. innanríkisráðherra erum vopnabræður í þessu máli. Þess vegna var ég nokkuð viss um að hæstv. ráðherra mundi gjarnan vilja fylgja eftir kröfunni um að stöðva aðildarviðræðurnar. Það sem vekur hins vegar athygli manna er að þessi krafa kom fram ekki bara frá hæstv. innanríkisráðherra heldur frá tveimur öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og formanni utanríkismálanefndar. Þegar þessir einstaklingar tala er formaður VG auðvitað ekki mjög víðs fjarri, því að við vitum það eins og Jónas frá Hriflu sagði: Byssurnar skjóta ekki sjálfar.

Þegar krafan um endurmat kom fram hlutum við að gera ráð fyrir því að því yrði fylgt eftir af einhverju viti, ekki bara með einstökum ræðum úr ræðustól Alþingis eða einu og einu blaðaviðtali eða viðtali í útvarpinu heldur með því að ríkisstjórnarflokkarnir settust niður. Hér hefur til dæmis varaformaður VG sagt að það ætti að gera, ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu að setjast niður, fara yfir þá ósk VG um að hér færi fram eitthvert endurmat, skoða hvort setja ætti málið á ís, hvort það ætti að hætta þessu algjörlega eða kalla til dæmis eftir (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þjóðin vildi halda lengur áfram.

Nú vil ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Fóru slíkar viðræður fram eða eru þetta bara svona skeytasendingar (Forseti hringir.) í fjölmiðlum? Er þetta til heimabrúks fyrir VG?