141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[16:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að neita mér um að ræða um forsögu þessa máls, aðdragandann og þau skref sem stigin hafa verið fram til þessa. Ég hef gagnrýnt mjög margt í því og læt við það sitja að minna á það við þessa umræðu. Ég ætla þó að segja að það er á vissan hátt galli og litar auðvitað þessa umræðu að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu meðan mál er í miðju vinnsluferli. Það hefur verið staðfest í dag af flestum sem talað hafa að Alþingi á auðvitað eftir að breyta ýmsu í því sem hér liggur fyrir, jafnvel þó að niðurstaðan á laugardaginn verði já. Alþingi á eftir að breyta ýmsu.

Ég spyr eins og ég spurði í vor þegar ákvörðunin um þjóðaratkvæðagreiðslu var tekin í þinginu: Af hverju er verið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í miðju kafi þegar ekki liggur fyrir endanlegt plagg, endanlegar tillögur, endanleg afurð? Það finnst mér óskynsamlegt. Ég ætla að láta þetta nægja um formið og aðdragandann.

Í mínum huga eru margar ástæður fyrir því að segja nei á laugardaginn. Í fyrsta lagi vil ég nefna að plaggið er ekki tilbúið og mér finnst of mikil skuldbinding fólgin í því að segja já við tillögum sem augljóslega þarfnast mikillar vinnu við. Við vitum ekki hvaða breytingar verða á síðari stigum þegar búið er að fara yfir alls konar annmarka sem eru á málinu, sem fræðimenn eru reyndar sammála um, svo því sé haldið til haga, að séu á þessum tillögum. Jafnvel þeir fræðimenn sem eru jákvæðir í garð tillagnanna segja: Þær eru ekki tilbúnar, þær geta ekki orðið að stjórnarskrá eins og þær eru, það verður að breyta þeim, verkinu er ekki lokið. Jafnvel þeir sem eru jákvæðir og eru þeir þó fjölmargir sem eru miklu neikvæðari en þetta. Þetta geta menn kynnt sér. Þetta vita þeir sem til dæmis sátu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á síðasta ári, þeir vita þetta. Þeir hafa hlustað á þessa gagnrýni.

Kannski er ástæðulaust að hugsa of mikið um lögfræði í sambandi við stjórnarskrá. En það vill reyndar þannig til að stjórnarskrá eru grundvallarlög, lög sem menn geta beitt í dómsmálum, lög sem eru grundvöllur annarra laga þannig að það er dálítið léttvægt þegar sagt er að ekki megi hafa þennan lagalega fókus eða lagalegu sýn á málin.

Ég ætla að nefna einn kaflann sem mér finnst stórgallaður, það er mannréttindakaflinn. Ekki vegna þess að markmiðin séu slæm, ekki vegna þess að þar séu ekki sett fram fögur fyrirheit og jákvæð markmið. Nei, frágangurinn er þannig að það skapar heilmikinn vanda í samfélaginu ef þetta verður samþykkt í því formi sem það er. Ég get vitnað til fjöldamargra um það.

Þegar menn semja stjórnarskrá eru þeir ekki að semja stefnuyfirlýsingu fyrir flokk eða kosningayfirlýsingu eða eitthvað þess háttar. Það er verið að búa til reglur sem eiga að gilda sem einstaklingar eiga að geta borið fyrir sig í dómsmálum til að gæta réttinda sinna. Og þegar farið er að hringla með þær reglur verða menn að hafa í huga að hvert hugtak, hvert orð getur haft mikla merkingu. Það er verið að taka mikla áhættu í mannréttindakaflanum á því sem Jón Ólafsson, prófessor á Bifröst, hefur sagt að sé merkingarusl með því að vera að breyta orðalagi og framsetningu ákvæða út og suður algjörlega að ástæðulausu.