141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Þó að ég sitji ekki í umhverfis- og samgöngunefnd hef ég auðvitað fylgst með þessu máli og reyndar áður tekið þátt í umræðum um það.

Eins og fram hefur komið er þetta ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur hér inn til þingsins og er nú komið heldur lengra en oft áður. Nefndarálitið er þar af leiðandi nokkuð stutt og vísar til fyrri nefndarálita.

Ég ætla að byrja á að taka undir það sem fyrri ræðumaður, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, hefur lagt mikla áherslu á í málflutningi sínum í þessum málaflokki, og reyndar í ýmsum öðrum sem snúa að rekstri ríkisfyrirtækja, og það er annars vegar gríðarleg þörf og krafa um að hagræða í ríkisrekstri og hins vegar hvernig við gerum það og hvort sú leið sem við erum á sé líkleg til að ná þeim árangri sem menn setja sér í háleitum markmiðum. Ég held að við séum öll meira og minna sammála um markmiðin. Það verður að segjast eins og er að í frumvörpunum eru mjög háleit markmið um hvaða möguleikar séu á samlegðaráhrifum, hagræðingu og samþættingarmöguleikum stofnananna, þar er talað í prósentutölum upp á annan tuginn sem eru gríðarlegir fjármunir.

Þá veltir maður fyrir sér: Er þetta raunhæft? Við höfum til dæmis á þessu kjörtímabili verið í ótal stjórnarráðsbreytingum með tilheyrandi kostnaði, höfum eytt hundruðum milljóna í að færa saman ráðuneyti, breyta húsnæði og byggja og gera starfslokasamninga við fólk. Mér kæmi ekki á óvart að það væri komið yfir milljarð. Ég heyrði einhverja tölu um daginn — ég þori varla að fara með hana, en ég verð þá bara leiðréttur ef hún er kolröng — en 1.700 milljónir voru nefndar, það eru alla vega hundruð milljóna sem þar hafa farið út.

Ég held að ég muni það rétt að í janúar á þessu ári hafi verið talað um að sparnaðurinn sem hlotist hefði af því að sameina innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið hefði numið 34 milljónum en hugmyndin sem var uppi hefði verið um 300 milljónir. Það virtist því aðeins hafa verið 10% árangur á því tímabili sem menn voru að skoða. Því er fullkomlega eðlilegt að spyrja hvort hægt sé að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram. Ég held að þeim tíma sem menn hafa varið í þetta mál hafi alls ekki verið illa varið en kannski hefði verið rétt í upphafi að horfa meira á þær athugasemdir sem gerðar hafa verið og velta því raunverulega fyrir sér hvort þessi leið ein og sér skili þeirri hagræðingu sem ætlast er til. Ég held við séum öll tilbúin til að lýsa því yfir að við viljum öll ná slíkri hagræðingu í ríkisrekstrinum.

Það er annar þáttur sem ég veit að hefur verið heilmikið ræddur og hefur snúist um útfærslurnar eins og það er kallað í nefndarálitinu frá því á fyrri þingum — á bls. 5 í nefndarálitinu er talað um aðrar færar leiðir. Þá hefur verið fjallað um það hvernig málið varð til upphaflega, með stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá júní 2008 um samgönguframkvæmdir. Þar voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi. Þar voru lagðar til þær breytingar, svo að ég vitni nú til nefndarálitsins, að settar yrðu á fót stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar og viðhalds, þ.e. þrjár stofnanir úr öllum þeim stofnunum sem heyrðu undir samgönguráðuneytið, Flugmálastjórn, Siglingastofnun, Umferðarstofu og Vegagerðinni, í það minnsta fjórum stofnunum. Það var sem sagt hugmyndin að gera þetta og í umræðum sem hér hafa orðið hefur til að mynda talsvert verið rætt um Stofnun hafs- og stranda og annað í þeim dúr.

Mér fannst svo skynsamlegur tónn í því þegar menn voru að velta fyrir sér að skilja þessar ríkisstofnanir að, annars vegar í stjórnsýslustofnanir og hins vegar í framkvæmdasviðsstofnanir. Mér fannst það á margan hátt mjög áhugaverður punktur því að ég held að það sé leið sem við þurfum að fara miklu víðar í stjórnkerfinu. Við gætum nefnt aðrar stofnanir, til dæmis Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og aðrar stofnanir sem hafa vaxið gríðarlega á liðnum árum. Við höfum bæði verið að færa verkefni til þessara stofnana, við höfum verið að færa valdsvið til þeirra og þær fara, til dæmis Vegagerðin og margar aðrar stofnanir sem heyra undir þessa umræðu, auðvitað með rannsóknir og stjórnsýslu en líka með eftirlitshlutverk og jafnvel sektarvald.

Við erum mjög fá, 320 þúsund, í stóru landi og við getum auðvitað ekki byggt upp hið fullkomna stofnanakerfi eins og við vildum sjá með fullkomnum aðskilnaði milli allra hluta. Því finnst mér það áhugaverð leið að velta því fyrir sér hvort ekki sé réttast að setja þessar stofnanir þannig upp að hér séu stjórnsýslustofnanir annars vegar og síðan framkvæmdastofnanir. Ég held að hér sé ekki verið að ganga þá leið á enda. Vitnað er til ýmissa umsagna, bæði einstakra aðila og stofnana eins og Hafnasambandsins og Siglingastofnunar, þar sem menn leggja einmitt til að farið verði að hinum upphaflegu hugmyndum um aðskilnað stjórnsýslu og framkvæmdar en með sérhæfingu á þeim sviðum sem hagsmunir okkar Íslendinga eru hvað mestir eins og varðandi hafið.

Í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá 138. löggjafarþingi er líka fjallað um það, og menn hafa rætt það, að þetta sé svo sem enginn endapunktur á samþættingu stofnana og sameiningu, að halda megi áfram. Utanríkismálanefnd fjallaði um þetta í nefndaráliti varðandi hugsanlega flutninga á starfsemi Landhelgisgæslu til Suðurnesja. Þá kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þá tekur meiri hlutinn undir með starfshópnum um möguleika á frekari endurskipulagningu og sameiningu þeirra stofnana sem heyra munu undir hið nýja innanríkisráðuneyti. Sérstaklega kemur fram sú framtíðarsýn hópsins að eftir endurskipulagningu á verkefnum Landhelgisgæslunnar, Vaktstöðvar siglinga og ríkislögreglustjóra fari undirstofnun innanríkisráðuneytisins með framkvæmd öryggismála, þ.m.t. þeirra sem áður voru falin Varnarmálastofnun. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn að sérstaklega beri að meta hagkvæmni þess að samþætta eða sameina starfsemi Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar og Vaktstöðvar siglinga og kanna eins og fyrr sagði möguleika á staðsetningu þessarar starfsemi, að minnsta kosti að hluta, á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.“

Í nefndarálitinu sem nú liggur fyrir er vísað í álit meiri hlutans, sem er undirritað 31. maí 2011. Þar segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn lítur á útfærslu frumvarpanna sem skref í vegferð hagræðingar í ríkisrekstri með endurskipulagningu og sameiningu ríkisstofnana. Meiri hlutinn leggst því ekki gegn þeirri grundvallarhugmynd sem frumvörpunum er ætlað að útfæra og mælir af þeim sökum með samþykkt þeirra. Engu síður áréttar meiri hlutinn að hann telur að ekki megi láta staðar numið enda gæti slíkt í raun og veru dregið verulega úr þeirri hagræðingu sem mögulegt er að ná með frekari sameiningum ríkisstofnana.“

Ég ætla að taka undir þetta en vil varpa því inn í þessa umræðu að í nefndarálitinu sem liggur fyrir og reyndar í því sem kom hér fyrst fram og er aftast — það var sama setning á bls. 9, fylgiskjal III. Þar segir, þar sem verið er að fjalla um samþættingar og nauðsyn þess að stjórnsýslan sé í stöðugri þróun og aukna skilvirkni, með leyfi forseta:

„Einnig áréttar meiri hlutinn það sjónarmið að starfsemin úti á landi verði varin við fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.“

Ég spyr: Hvað þýðir þetta? Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var fyrr í haust hélt Þóroddur Bjarnason, prófessor og stjórnarformaður Byggðastofnunar, frábært erindi. Hann fjallaði um byggðastefnu Íslendinga síðastliðin 150 ár, einmitt varðandi ríkisstofnanir. Við tókum þá ákvörðun fyrir 150 árum að byggja Reykjavík upp sem höfuðborg landsins og færðum allar stofnanir sem heyrðu undir ríkið til Reykjavíkur.

Við höfum fylgt þessari byggðastefnu frábærlega vel og það kom mjög vel fram í erindi hans að trúlega hefðum við náð betri árangri en aðrar þjóðir í því að framfylgja þeirri byggðastefnu. En við höfum hins vegar aldrei haft neina aðra byggðastefnu. Nú vil ég spyrja samgöngunefndarfólk og hæstv. ráðherra, ef hann heyrir mál mitt, hvort ekki sé tækifæri fólgið í því, ef við erum að setja upp stjórnsýslustofnanir, að stíga það skref svolítið nákvæmar og fara alla leið í því máli. Stjórnsýslustofnanir ættu eðli starfsemi sinnar vegna þá heima hér á höfuðborgarsvæðinu en verkefnin, framkvæmdaverkefnin, eftirlits- og rannsóknarverkefnin, sem eru meira og minna framkvæmd alls staðar á landinu, væru þá byggð upp þar.

Ég er ekki að tala um hreppaflutninga starfsfólks og ég tek undir að starfsmenn þessara stofnana hafa búið við óþolandi óvissu síðastliðin þrjú ár undir stöðugri umræðu án þess að vita hver niðurstaðan yrði. Það er líka mikilvægt, eins og lagt er til í áliti meiri hlutans, að kjör þeirra og starfsöryggi sé tryggt, að þeim verði boðin sambærileg störf hjá stofnununum.

En ég hef ekki séð neitt um þetta hér, þetta tækifæri. Ég man reyndar að þegar hæstv. ráðherra var spurður á síðasta þingi hvort hann hygðist nota tækifærið til að flytja ákveðnar stofnanir eða verkefni út á land þá kom ekkert skýrt svar við því. En ég held að það sé einmitt mikilvægt að við tökum þessa umræðu ef við erum að fara þessa leið, sem ég tel að sé mjög skynsamleg. Ég er ekki viss um að útfærslan hér hvað varðar Farsýsluna og Vegagerðina, sem eru annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar framkvæmdastofnun, gangi alla leið í því að aðskilja stjórnsýsluna og framkvæmdarvaldið eins og ég hef farið yfir.

Áhugavert væri að velta því fyrir sér hvort við værum þá ekki komin með tæki til að taka upp nýja byggðastefnu ef við mundum útfæra starfsemi ríkisstofnana út frá þessari leið. Stjórnsýslustofnanirnar yrðu hér á höfuðborgarsvæðinu, í nálægð við ráðuneyti og þing og annað í þeim dúr — og ef henta þykir að þær séu annars staðar er það líka allt í lagi — en verkefnin yrðu færð nær starfseminni þar sem hún er, því fólki sem þar er. Það ætti þá jafnt við um þær stofnanir sem hér er fjallað um og stofnanir sem heyra undir önnur ráðuneyti.

Þessi umræða hefur ekki farið mjög hátt. Í kjölfar hins góða erindis Þórodds Bjarnasonar — ég hvet alla Íslendinga til að fara inn á netið og skoða það erindi, það má finna það víða — er vert að velta því fyrir sér hvort nú sé ekki tækifæri til að byggja upp fjölþættara Ísland með betri búsetumöguleikum um allt land og betri starfsemi stofnana, og vonandi með meiri hagræðingu í kjölfarið en raunin hefur verið á síðustu áratugum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar. Ég tek undir það sem kom fram í ræðu hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni hvað það varðar að þetta eigi að smella í gagnið innan örfárra mánaða. Þrátt fyrir þá umfjöllun sem málið hefur fengið í þinginu hefur það hjakkað í sama farinu. Menn hafa ekki tekið þessa umræðu, menn hafa ekki skoðað aðra kosti, menn hafa ekki velt því fyrir sér hvort þetta sé rétta leiðin eða hvort þetta muni skila því sem menn ætlast til. Ég held að það þurfi kannski aðeins meira kjöt á beinin áður en menn halda af stað.

Við þekkjum ferlið hvað varðar uppbyggingu ríkismannvirkja. Þegar hið opinbera kemur að málum virðast allar áætlanir fara út og suður. Það er líka ágætt að nefna það sem ég nefndi í upphafi máls míns um sparnaðarhugmyndir við svokallaða einföldun á Stjórnarráðinu. Allt hefur það kostað óheyrilega fjármuni en sparnaðurinn hefur til þessa verið afar takmarkaður.

Frú forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að biðja hv. umhverfis- og samgöngunefnd, ef hún kemur saman milli 2. og 3. umr., að skoða hvort sú leið sem hér er verið að leggja af stað í liggur í átt að því markmiði að aðskilja stjórnsýslu, framkvæmdir, eftirlitshlutverk og rannsóknir. Ég velti því líka fyrir mér hvort ekki gefist um leið tækifæri til að byggja upp fjölþættara Ísland hvað varðar búsetumöguleika fólks og þjónustu ríkisstofnana, þ.e. að ríkisstofnanir veiti þjónustu út um allt land í stað þess að öll starfsemi þeirra verði á einum stað í mjög stórum stofnunum. Margir nefndu það í athugasemdum sínum að þeir óttuðust að það gæti orðið til þess að þjónustan yrði lakari.