141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, ég tel fulla ástæðu til að hér fari fram umræða um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Ég hef verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að hún fari reglulega fram og menn skiptist á skoðunum um það hvar við erum stödd í ferlinu og þess háttar.

Ég vil líka taka fram vegna afstöðu til einstakra mála að grundvallarhagsmunum Íslands er lýst í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá 2009. Þar eru allar okkar meginlínur dregnar upp. Það er það veganesti sem íslenskir samningamenn, bæði ríkisstjórnin og embættismenn á vegum ríkisstjórnarinnar, fara eftir. Það þarf ekkert að fara í felur með það sem þar stendur. Það er opinbert plagg og út frá því hlýtur að vera unnið.

Varðandi trúnaðinn vil ég ítreka að ég hef beitt mér fyrir því að trúnaði af gögnum sem varða þetta mál sé aflétt fyrr en var í upphafi ferlisins, m.a. vegna umræðu og ábendinga sem um það hafa komið fram og sjónarmiða í nefndinni og við höfum átt ágætt samstarf um það. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að við ræðum á vettvangi nefndarinnar hvernig farið verður með þau mál í framhaldinu. Ef menn hafa sérstakar óskir eða skoðanir eða tillögur um að gera breytingar ræðum við það að sjálfsögðu.