141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

trúnaður í störfum nefnda.

[15:53]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir að ræða þurfi með stjórn þingsins með hvaða hætti utanríkismálanefnd hefur þetta mál í sínum höndum og aðkomu hennar að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu. Það þarf að ræða hver sé ábyrgð nefndarinnar gagnvart þinginu hvað varðar einstök atriði málsins.

Ég vil líka árétta að í greinargerðinni með umsókninni á sínum tíma var lögð áhersla á mjög opna umræðu, mikla og jafnhliða upplýsingagjöf um málið.

Ég vil líka árétta að þetta er gríðarlega stórt mál og það er ekkert smámál hvernig hlutir eru orðaðir í samningsafstöðu Íslands, að menn vísi til þess að þeir meini þetta, en segja svo annað. Þarna þarf að vera nákvæmt samræmi og ef sagt er að það eigi að vera ófrávíkjanleg skilyrði í einhverju á það líka að standa skrifað en ekki öðruvísi.

Ég tek undir þá kröfu að þetta mál komi hingað til ítarlegrar og langrar umræðu á Alþingi. (Forseti hringir.) Ég bað um það í fyrravetur og get ítrekað þá beiðni hér, frú forseti.