141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um flug til Grænlands.

70. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Það er ljóst að hæstv. ráðherra og hæstv. ráðuneyti hafa brugðist vel við samþykkt Alþingis og unnið þessa úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði til staðar sá búnaður sem þarf til að hægt sé að sinna þaðan flugi til Grænlands.

Ég skal játa að ýmislegt af því sem hæstv. ráðherra rakti í nokkuð tæknilegu svari sínu var þannig að ég nam það ekki nákvæmlega, a.m.k. ekki til að endursegja það í löngu máli. Hins vegar tók ég eftir því að hæstv. ráðherra sagði að lagðar hefðu verið fram af hálfu Isavia þrjár tillögur til að bregðast við þessum áformum og ein þeirra hefði hlotið náð fyrir augum Flugmálastjórnar. Það er væntanlega sú tillaga sem við erum að horfa sérstaklega á. Kostnaðurinn við hana væri rúmar 80 millj. kr. þegar búið væri að taka tillit til almenns stofnkostnaðar, og síðan ýmislegt sem lýtur að skilyrðum sem koma í kjölfarið á flugvarnaráætlun sem við erum skuldbundin að fylgja. Síðan er rekstrarkostnaður á ári rúmar 30 millj. kr. Auðvitað gerum við okkur ekki grein fyrir því á þessari stundu hverjar tekjur gætu verið af rekstri þessa flugvallar í millilandaflugi. Hins vegar er ljóst mál einhverjar tekjur gætu komið til þannig að við erum örugglega ekki að tala um nettótekjur sem þyrftu að koma úr ríkissjóði.

Ég verð að segja að ef þarna er um að ræða verulegt tækifæri, sem ég hygg að kunni að vera, ættum við ekki að láta 80 millj. kr. velkjast fyrir okkur. Þó að við séum með niðurskorna samgönguáætlun í fluginu um þessar mundir eigum við að reyna að horfa til lengri tíma í þessum efnum. Þetta kostar auðvitað ákveðinn undirbúning og ég geri mér grein fyrir því að þetta gerist ekki í dag eða á morgun. Að mínu mati eru þessar hugmyndir og sú staðfesting sem hefur komið á því (Forseti hringir.) að mögulegt sé að stunda þetta tiltekna flug með þeim tilteknu skilyrðum sem hæstv. ráðherra hefur rakið og (Forseti hringir.) stofnkostnaðurinn sé um 80 millj. kr., þess eðlis að ég tel að við eigum að skoða þetta af mikilli alvöru á næstunni.