141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við í allsherjar- og menntamálanefnd áttum í morgun athyglisverðan fund með meðal annars forustumönnum Símans og Almannavarna út af því að GSM-samband lagðist niður um tíma. Menn voru að leita skýringa á því og ég tel að ágætissvör hafi fengist.

Þetta leiðir hugann að fyrirspurn minni sem tengist eldgosum ofan Hafnarfjarðar og þeim almannavarnaáætlunum sem við þurfum að hafa fyrir allt landið, ekki síst á suðvesturhorninu. Í svari frá hæstv. innanríkisráðherra kemur fram að verið er að vinna heildstætt hættumat vegna eldgosa á Íslandi. Þá veltir maður fyrir sér forgangsröðuninni við hættumatið varðandi eldgosin sjálf, hvort það sé ekki alveg öruggt að til að mynda hættumat verði gert á Reykjaneshryggnum sem mundi hafa bein áhrif á suðvesturhornið. Það er ljóst að meðan viðbragðsáætlun vegna eldgosa liggur fyrir verður ekki farið í almennt annað hættumat. Það skiptir máli hvernig við hugum að almannavörnum, ekki síst á suðvesturhorninu þar sem tveir þriðju landsmanna eru búsettir.

Það er ekki eingöngu út af eldgosum eða jarðskjálftum sem ég dreg það fram hversu þýðingarmikið það er fyrir okkur að hafa þetta heildstæða hættumat fyrir suðvesturhornið. Það verður að tengja þetta inn í skipulagsmálin, inn í þær áætlanir sem við höfum til að mynda um uppbyggingu í samgöngumálum á suðvesturhorninu, en ég vil líka minna á að það er ekki lengra en ríflega 200 ár síðan svonefnt Básendaflóð varð þar sem ein krappasta lægð sem riðið hefur yfir Ísland á sögulegum tíma gekk yfir landið. Það var í janúar 1799. Það gekk það mikið á að kirkjur fuku, m.a. á Hvalnesi og Seltjarnarnesi, og bátar skemmdust einmitt víða á svæðinu sem við erum að tala um að skipti máli að heildstætt hættumat liggi fyrir um, frá Eyrarbakka vestur að Snæfellsnesi. Hér er mesti mannfjöldinn, hér þarf að búa til heildstæða almannavarnaáætlun (Forseti hringir.) svo hægt verði að koma fólki í burtu ef hætta steðjar að.