141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg einstakt hvernig hv. þm. Vigdís Hauksdóttir getur snúið öllum hlutum á hvolf, í þessari umræðu sem annarri. Hún er eldri en tvævetur á þingi og ætti að þekkja hvernig kaupin gerast á eyrinni, því miður, þegar stjórnarandstaða beitir afli sínu til að koma í veg fyrir að þjóðþrifamál eins og þessi fái eðlilegan framgang. Það væri auðvitað eðlilegt að hún ræddi við hv. þingflokksformenn síns eigin flokks, Framsóknarflokks, og Sjálfstæðisflokks hvernig þau mál gengu fyrir sig í sumar. Það var langt í frá að vilja okkar sem erum hér í meiri hluta fyrir þessu máli og flytjum það inn í þingsal.

Ég verð að vera raunsær í því hvaða tíma er eðlilegt að gefa til að fylgja þessu máli eftir. Ég hafði gert mér vonir um að þetta mál yrði afgreitt í byrjun nóvembermánaðar og að rannsóknarnefnd gæti tekið til starfa á næstu vikum. Það liggur hins vegar fyrir samkvæmt þeim gögnum og upplýsingum sem ég hef fengið frá forsætisnefnd að ekki er hægt að reikna með því að slík nefnd taki til starfa fyrr en einhvern tímann í ársbyrjun, í janúarmánuði, jafnvel þegar vel er liðið á janúarmánuð.

Það er auðvitað engan veginn hægt að horfa til þess að þrír mánuðir dugi (Forseti hringir.) til að ljúka þessu máli. Það hefði betur verið staðið þannig að málum ef menn hefðu sameinast um þá ósk okkar í fyrravor að klára málið á þeim tíma.