141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað.

118. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnhugsun mín er sú að það sé gríðarlega kostnaðarsamt að veita öllum fyrirtækjum í landinu skattafslætti. Vegna þess að ríkissjóður er í svo slæmri stöðu um þessar mundir og í stað þess að keyra okkur á lánum og eiga ekki fyrir öllum útgjöldum ættum við að reyna að takmarka afslættina og horfa sérstaklega á þann hluta atvinnulífsins sem hefur mestu vaxtarmöguleikana og einbeita okkur að því að láta hann vaxa. Það er hugsunin með þessari tillögu.

Hvað snertir átakið Allir vinna er það öðrum þræði gert til þess að nýta fjármagn sem er bundið á bankareikningum og finnur sér ekki farveg í atvinnulífinu í kreppuástandi eins og við höfum upplifað. Það var góð leið til að hvetja fólk til að nýta það fjármagn sem það átti aflögu, ef það átti eitthvað aflögu, til að ráðast í endurbætur eða viðhald á húseignum sínum eða öðru. Það skilaði mjög góðum árangri og hélt uppi ákveðinni veltu í byggingargeiranum sem fór illa í hruninu.

Ég tel að við eigum að hugsa svona dæmi víðar. Maður getur ímyndað sér að það gæti verið hagfellt fyrir okkur að hvetja fjármagn sem liggur í bönkunum til fjárfestingar í atvinnulífinu. Væri skattafsláttur til hlutabréfakaupa í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum leið til þess þar sem fólk gæti annaðhvort beint eða í gegnum sjóði fjárfest í sprotafyrirtækjum, nýsköpunarfyrirtækjum, tækni- og rannsóknarfyrirtækjum sem eru helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs? Við getum þá með einhverjum hætti hvatt til þess að fólk veiti fjármuni sína í þann farveg með því að veita því skattafslætti. Vonandi aukum við þá um leið tekjur ríkisins til lengri tíma litið.