141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

tillögur ungra sjálfstæðismanna um aðgerðir í ríkisfjármálum.

[10:53]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vakti máls á því í umræðum á þinginu í gær að nú hefðu komið fram tillögur úr ranni sjálfstæðismanna um aðgerðir í ríkisfjármálum varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 þar sem gengið er mjög langt í því að skera niður fjárlagafrumvarpið, þ.e. um 22%. Þar er ráðist á mikilvæga grundvallarstarfsemi í samfélaginu eins og menntakerfið, rannsóknir og vísindastarfsemi, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ríkisútvarpið, þróunaraðstoðina eins og hún leggur sig, Hafrannsóknastofnunin slegin af, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga tekinn af um 15 milljarða, 100%, og þar eru tillögur meðal annars um að taka algerlega út framlög til nýsköpunar, nýsköpunarfyrirtækja, tækniþróunarmála og þess háttar.

Þetta eru vissulega tillögur frá ungum sjálfstæðismönnum og þær hafa ekki komið með formlegum hætti frá flokknum inn í þingið en þær lýsa ákveðnum hugmyndum og hugsjónum sem þarna eru á ferðinni, vísa veginn og benda til þess að þessi flokkur sé á hraðri leið til hægri.

Þeir sjálfstæðismenn sem eiga hlut að máli hafa afhent hæstv. fjármálaráðherra þessar hugmyndir sínar og mig langar að heyra mat hæstv. ráðherra á því hvaða áhrif tillögur af þessum toga mundu hafa á efnahags- og atvinnulíf í landinu og á samfélagið almennt. Ég held að það sé mikilvægt að við heyrum skýrt hvaða sjónarmið hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur til þessara róttæku, og ég vil segja eyðileggjandi, tillagna sem mundu rústa mikilvæga samfélagslega starfsemi í landinu. (Gripið fram í.)