141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í gær var kunngerð skýrsla sem hæstv. innanríkisráðherra hefur látið gera um alvarlegt ástand löggæslustarfsemi í landinu, svört skýrsla þar sem lýst er mjög erfiðum aðstæðum í þessum mikilvæga málaflokki. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að láta gera þessa úttekt og gera ríkisstjórninni og þinginu grein fyrir þessari alvarlegu stöðu.

Ég talaði um það hér í gær að ábyrgð þingsins væri mikil þegar kemur að þessum grundvallaratriðum. Ég beini orðum mínum fyrst og fremst til hv. stjórnarþingmanna þegar ég bendi á að í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti fyrir um tíu dögum, kennir ýmissa grasa. Á næsta ári á til dæmis að setja um 1 þús. milljónir í grænan fjárfestingarsjóð, 50 milljónir í grænar fjárfestingar, 500 milljónir í grænkun fyrirtækja, 200 milljónir í vistvæn innkaup og 938 milljónir í skapandi greinar. Ég geri ekki lítið úr þessum verkefnum en held að menn þurfi að forgangsraða betur við fjárlagagerð fyrir næsta ár. Við verðum að forgangsraða í þágu mikilvægra málaflokka. Þar horfi ég fyrst og fremst til þess mikilvæga málaflokks sem löggæslumál og heilbrigðismál falla undir. Það gengur ekki að við sýnum fram á að til séu nógir peningar í þessi verkefni en getum ekki staðið við lágmarksinnkaup á tækjabúnaði til Landspítalans og tryggt lágmarksöryggi borgaranna og öfluga löggæslu í landinu. (Forseti hringir.) Svona forgangsröðun gengur ekki, virðulegi forseti. Það þýðir ekki að segja: Ja, það varð hrun og við urðum að skera niður. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin sýnir fram á að nægir fjármunir séu til í einhver gæluverkefni (Forseti hringir.) sem er ekki hægt að kalla annað við þessar erfiðu aðstæður.