141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég held að mikilvægt sé þegar við ræðum þá alvarlegu atburði sem gerast á þessu svæði — og reyndar víðar í heiminum, við vitum hvað er að gerast á Sýrlandi og hrikalegar slátranir hafa því miður farið fram víða í heiminum — að við tölum út frá því hvað við Íslendingar getum gert. Mér finnst það ekki til framdráttar fyrir umræðuna þegar menn gera því skóna að hér séu þingmenn sem ekki skilji hvers konar voðaatburðir eru á ferðinni eins og hv. þm. Mörður Árnason ýjaði að í máli sínu áðan.

Ég held að fyrir okkur Íslendinga skipti mestu að gera það sem við höfum ávallt gert, að tala fyrir friði og sáttum. Ég hygg að það sé hárrétt nálgun hjá hæstv. utanríkisráðherra þegar hann styður friðarferlið sem nú er fram undan á svæðinu og einnig þegar hann nefnir að við skulum fylgja okkar vinaþjóðum í því máli. Ég held að það skipti öllu, bæði þegar litið er til framhaldsins, þess mikilvæga verkefnis að ná friði á svæðinu, og til stjórnmálasambandsins sem við eigum núna við Ísrael, að menn fari fram af varkárni, gefi sér tíma til þess að fara yfir hlutina og fylgi sínum vinaþjóðum í verki.

Ég vil líka segja að Ísland hefur alltaf haft einstaka rödd á þessu sviði. Ég held að brýnt sé að við hlúum að henni hér í salnum. Land sem aldrei hefur haft eigin her hefur einstaka rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að tala fyrir friði og getur gert það með allt öðrum hætti en aðrar þjóðir. Það finnst mér eiga að vera meginverkefni okkar hér: Að tala fyrir friði á svæðinu, styðja vinaþjóðir okkar sem þar fara fremstar í flokki og hafa okkar rödd skýra í því efni.