141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram um þetta mikilvæga málefni. Ég finn að það er þungi í umræðunni og afstöðu manna og ég er sannfærður um að hæstv. utanríkisráðherra mun fylgja þeim þunga eftir gagnvart þeim sem við þurfum að eiga samskipti við á næstunni.

Það eru nokkur atriði sem hafa verið nefnd sem ég vil gera að umtalsefni.

Talað er um frið og friðarumleitanir. Að sjálfsögðu eigum við alltaf að tala máli friðar og styðja allar friðarumleitanir sem eru í gangi á þessu svæði eins og annars staðar, nema hvað. Það er líka talað um að við eigum að sýna varkárni þegar við ræðum um einstakar aðgerðir, t.d. varðandi stjórnmálasamband okkar við Ísrael. Já, við eigum að sjálfsögðu að sýna varkárni. Sá sem hér stendur verður ekki sakaður um annað en að vera tiltölulega varkár í sínu pólitíska starfi en jafnvel varkárum mönnum getur verið nóg boðið. Það er svo komið.

Hv. formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að það væri yfirlýst stefna Hamas að útrýma Ísraelsríki. Ég mótmæli því. Hamas-samtökin hafa breytt um stefnu hvað það varðar. Áður fyrr héldu þau hinu fram, eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins segir. Ég held því hins vegar fram að í verki sé það afstaða Ísraelsmanna að útrýma Palestínuríki. Það hafa þeir verið að gera skref fyrir skref undanfarin ár. Þrátt fyrir ítrekaðar friðarumleitanir og friðarsamninga hafa Ísraelsmenn mulið Palestínu undir sig. Það er þróun sem verður að stöðva. Það verður of seint að koma á tveggja ríkja lausn ef búið er að útrýma palestínsku þjóðinni. Það er nokkuð sem við verðum að hafa í huga.

Hér er talað um að við verðum að vera samferða nágrannaþjóðum okkar, eins og Norðurlandaþjóðunum — það er fínt og við eigum að beita okkur fyrir því — en hvað hefðum við gert í fyrra ef við hefðum ætlað að bíða eftir Norðurlandaþjóðunum með að viðurkenna sjálfstæði Palestínu? Hefðum við þá látið það eiga sig?

Ég tel að Ísland verði (Forseti hringir.) að tala sjálfstæðri rödd. Það er alveg ljóst að beita verður Ísrael raunverulegum aðgerðum. Því fer víðs fjarri að árásir þeirra (Forseti hringir.) nú séu gerðar í sjálfsvörn. Ísrael þverbrýtur alþjóðalög og við því þarf að bregðast af fullum þunga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)