141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.

[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Formaður Framsóknarflokksins spyr hvernig utanríkisráðherra beiti sér gagnvart Norðurlandaþjóðunum. Með því að vera stöðugt í sambandi við þær og taka málefni Palestínu upp á nánast hverjum einasta fundi sem við eigum saman og þeir eru töluvert margir.

Utanríkisráðherra Íslands reynir sömuleiðis að beita norræna kollega sína fortölum. Það hefur ekki alltaf gengið eftir. Fjórum sinnum hefur Ísland rofið samstöðu Norðurlandaþjóðanna og tekið skrefi lengra en sumar þeirra. Ég minni á að Ísland samþykkti og greiddi atkvæði með aðild Palestínu að UNESCO. Það voru ekki allar Norðurlandaþjóðirnar sem gerðu það. Ísland stóð eitt og beitti neitunarvaldi gegn því að Ísrael fengi aðild að sérstökum mannréttindahópi vestrænna þjóða sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum. Það var erfitt. Það voru margar öflugar þjóðir, kannski þær öflugustu í heimi, sem beittu Ísland þrýstingi. Í því máli voru mörg samtöl og mörg viðtöl við utanríkisráðherra Íslands. Hann stóð fastur á því sem hann taldi rétt og á því sem hann taldi vera stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar og þingsins, þótt það hafi gerst áður en menn tóku þá góðu ákvörðun að viðurkenna fullveldi Palestínu. Það liggur algerlega fyrir að Ísland hefur tekið frumkvæði og í sumum greinum staðið eitt vestrænna þjóða í þeim slag.

Ég trúi ekki á tilviljanir í lífinu, alla vega mjög sjaldan. Ég tel ekki að það sé tilviljun að innrás sé gerð í Gaza nákvæmlega 10 dögum áður en Abbas forseti ætlar að leggja fram sína tillögu um aukaaðild Palestínu á allsherjarþinginu. Ég held að það sé tengt. Sömuleiðis kæmi mér ekki á óvart að ráðamenn í Ísrael hefðu haft auga á því að þeir eru að tapa fylgi núna meðal ísraelsku þjóðarinnar. Hvað er best í heimi til þess að sameina þjóðir að baki ríkisstjórnum sem eru að tapa fylgi? Það er að fara í stríð. Það er hinn beiski sannleikur.