141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu koma fram breytingartillögur að þessu frumvarpi, alla vega frá fulltrúum Framsóknarflokksins. Það er okkar mat að breyta þurfi ýmsum atriðum í núgildandi stjórnarskrá og ber okkur þá helst að líta til kafla I, II og V í núgildandi stjórnarskrá, svo það sé sagt hér.

Varðandi svarið við þeirri spurningu minni hvað það kostaði ríkissjóð að fara með málið til Feneyjanefndar finnst mér mjög einkennilegt að kostnaðurinn skuli ekki liggja fyrir við 1. umr. vegna þess að í gegnum fjáraukalög í síðustu viku fóru 10 millj. til sérfræðingahópsins. Þingmaðurinn segir að þetta séu ekki verulegar upphæðir. Kannski er ekki hlutfallslega um verulegar upphæðir að ræða þegar málið sjálft hefur þegar kostað skattgreiðendur 1.300 millj. Hvert er hlutfallið af þeirri verulegu upphæð sem hv. þingmaður talar um? Það verður að koma í ljós hvaða aukni kostnaður felst í því að úthýsa því úr landinu, þessari útrás með stjórnarskrána.