141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir ræðuna. Hann á sæti í þeirri hv. nefnd sem hefur fjallað um málið, hann flytur það og mér leiddist dálítið að heyra hann segja að stundað hefði verið málþóf hérna í vor. Það vill svo til að ég notaði tækifærið, ásamt örfáum fleiri þingmönnum, til að ræða stjórnarskrána efnislega sem þjóðin átti eftir að greiða atkvæði um. Mér fannst algert lágmark að þjóðin vissi um hvað hún ætti að greiða atkvæði og það væri búið að ræða það í sölum þingsins. Svo er það kallað málþóf.

Í ekki einni einustu ræðu minni endurtók ég mig eða var langorður. Ég var að ræða þetta vegna þess að ég var búinn að fara í gegnum hvert einasta atriði í tillögum stjórnlagaráðs, hverja einustu grein, greina hana niður og bera saman við núgildandi lög. Mjög margt er gott, annað er hættulegt. Mörgu þarf að breyta. Ég tel það ekki málþóf.

Hins vegar stöndum við nú frammi fyrir því að málið er komið aftur inn á þing og ég þarf sennilega að skrifa nýja umsögn. Ég mun sjá til hvort ég fái ekki fleiri þingmenn, t.d. í mínum þingflokki, til að vera samstiga um að koma með breytingartillögur sem menn geta verið sammála um. Það er nefnilega mjög margt í núgildandi stjórnarskrá sem verður að laga. Hún er úrelt að mörgu leyti en að öðru leyti góð.

Ég held að við ættum að fara að vinna í þessu efnislega, allir hv. þingmenn. Við erum stjórnlagaþingið og ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér tillögur mínar sem eru í mjög löngu máli. Sumar tillögur samþykkti ég en kom með breytingartillögur við aðrar. Þær hafa væntanlega verið ræddar í hv. nefnd sem um þetta fjallar og vegnar léttvægar — eða ekki. Ég veit það ekki.