141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólína Þorvarðardóttir létu hann niður falla og ræða aðeins um kjördæmaskipanina og kosningalögin. Ég er þeirrar skoðunar að þessi umræða hafi allt of mikið verið einfölduð í gegnum tíðina, sérstaklega hér á landi. Hér hafa menn eingöngu verið að ræða spurninguna um jafnt vægi atkvæða. Það eru ýmis önnur álitamál sem koma líka til skoðunar þegar við ræðum þessi mál, mér tekst vonandi að fara yfir það í ræðu þegar ég kemst að með það.

Ég tel að hægt sé að færa fyrir því rök að ekki sé endilega skynsamlegt að horfa svona mikið á hugmyndina um jafnt vægi atkvæða. Á þessu stigi vil ég hins vegar gera mjög alvarlegar athugasemdir við ákvæðið í 39. gr. eins og það er lagt hér fram. Það er þannig útfært að annars vegar er verið að tala um að kjördæmin, sem geta verið allt að 8, kjósi 30 þingmenn. Síðan eru landslistar sem kjósi 33 þingmenn. Hið jafna vægi atkvæða á að vera tryggt með því að kjördæmin allt að 8 fái sinn skerf úr 30 þingmannahópnum. Það á að byggjast á hugmyndinni um einn maður, eitt atkvæði.

Síðan er það landslistinn og þar munu málin horfa aðeins öðruvísi við. Í teoríunni getum við sagt að þar sé einn maður, eitt atkvæði, en það sem þetta mun hafa í för með sér er það sem menn hafa nefnt margfeldisáhrifin í óréttlætisátt með því að þeir sem bjóða sig fram á landslistanum hljóta eðli málsins samkvæmt — og lítum við hvert í eigin barm — að reyna að höfða til þess hóps sem stærstur er í hópi kjósenda. Þá er ljóst mál að mikil hætta er á því að landskjörnir þingmenn treysti sér ekki til að taka tillit til hagsmuna fámennra svæða ef þeir hagsmunir stangast á við hagsmuni fjölmennustu svæðanna, og þess vegna verði til nýtt ójafnvægi sem verði algjörlega (Forseti hringir.) á hinn veginn. Ég tel þess vegna að þessi útfærsla sé mjög slæm, að þetta sé mjög vond blanda sem þarna er verið að búa til og hvet (Forseti hringir.) eindregið til þess að horfið verði frá henni.