141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Hún fór í gegnum ýmis mál, t.d. jöfnun atkvæðisréttar og hér hefur verið rætt um að slíkt geti jafnvel snúist upp í öndverðu sína.

Alla tíð síðan ég kom inn á þing hef ég verið móti mismunandi atkvæðavægi í landinu. Ég tel að atkvæði séu mannréttindi og að við getum ekki mismunað fólki á grundvelli atkvæðisréttar. Þegar ég kom inn á þing var atkvæðavægið 1:4 þar sem verst lét. Svo var það minnkað niður í 1:2 og eftir það hef ég verið tiltölulega sáttur, vegna þess að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að fólk úti á landi býr við mikið óhagræði af því að allt ríkisvaldið vex í Reykjavík. Ríkisvaldið á Íslandi hefur vaxið alveg óskaplega síðustu 50–100 árin. Og það vex hvar, frú forseti? Á Reykjavíkursvæðinu, í kringum Alþingi, í kringum stjórnarráðsbyggingarnar o.s.frv. Allt landsbyggðarfólk skal koma til Reykjavíkur til að sækja þjónustu, til að biðja um þetta og hitt, og ég vil að menn nálgist hlutina með allt öðrum hætti.

Ég vil ekki að menn séu að versla með atkvæðisrétt á móti þessu óhagræði heldur vil ég hreinlega að mönnum verði greiddur sá kostnaður sem felst í því að búa úti á landi, greiddur sá kostnaður sem felst í því að fara til læknis, sækja heilbrigðisþjónustu, lögfræðiþjónustu og alls konar þjónustu gagnvart hinu opinbera og sjá hvort þá myndist ekki vilji til að flytja eitthvað af þessari þjónustu út á land, af því að það gæti verið ódýrara. Síðan verði atkvæðisrétturinn algjörlega jafn.

Ég vil vara við þeim hugmyndum sem eru í 39. gr. og ég skora á þingmenn að fara mjög ítarlega í gegnum það hvort ekki finnist önnur lausn sem er betri en þessi.