141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég kom hingað í ræðustól til að láta í ljósi efasemdir mínar um að næstu kosningar til Alþingis uppfylli allar kröfur um lýðræðislegar kosningar. Ástæður efans eru margþættar en ekki síst aðstöðumunur nýrra framboða og fimmflokksins.

Alþingi hefur komið því þannig fyrir að ný framboð fá ekki fjárframlag frá ríkinu til að heyja kosningabaráttu sína fyrr en að afloknum kosningum. Á sama tíma greiðir ríkissjóður til fimmflokksins á bilinu 25–90 millj. kr., þ.e. hver og einn flokkur fær á bilinu 25–90 millj. kr. Það þýðir að mikill aðstöðumunur er á milli þeirra flokka sem eiga kjörna fulltrúa á þingi. Samanborið við ný framboð geta þessir fimm flokkar eytt mun meira fjármagni og tíma í að ferðast um landið og hitta kjósendur jafnframt því að kynna stefnu sína fyrir kjósendum um allt land.

Fjölmiðlar hafa jafnframt sýnt nýjum framboðum takmarkaðan áhuga og í könnun sem Viðskiptablaðið gerði á helstu viðmælendum Ríkisútvarpsins á fyrri helmingi þessa árs var ekki að finna neinn formann nýrra frambjóðenda á lista yfir þá sem voru oftast í viðtölum hjá Ríkisútvarpinu.

Capacent Gallup hefur auk þess ítrekað látið hjá líða að taka nýtt framboð eins og Samstöðu, flokk lýðræðis og velferðar, með á lista (Forseti hringir.) yfir flokka sem kjósendur ættu að geta hugsað sér að kjósa. Við það er ekki hægt að búa (Forseti hringir.) öllu lengur og ég skora á þingið (Forseti hringir.) að gera allt sem í þess valdi (Forseti hringir.) er til að bæta stöðu nýrra framboða.