141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir gott svar og er sammála þeirri skoðun þingmannsins að stjórnarskrár eiga að vera stuttar, skorinortar og skýrar og í þeim eiga hvorki að vera málamiðlanir né ákvæði sem eru í öðrum almennum lögum. Gallinn við þetta frumvarp er að það er ægilegt valdaframsal í því. Hér eru ákvæði um að nánari útfærslur á hinni og þessari grein skulu vera framkvæmdar með almennum lögum. Ég tel að það sé stjórnskipulegt framsal.

Ég er sammála því áliti þingmannsins að það sé gott að sveitarfélögum skuli vera fundinn staður í stjórnarskránni, en ég tel þó að menn séu þarna komnir út í allt of mikla smámunasemi eins og ég fór yfir áðan. Ég er sammála því að þetta sé of mikið, en þrátt fyrir það eigi að gera sveitarfélögum hátt undir höfði á einhvern hátt sem öðru opinberu valdi.