141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka gott svar við spurningu minni. Eins og þetta stendur í dag, breytt með þessum hætti, má alveg færa fyrir því rök að verið sé að taka kosningarrétt af fólki með því að það skuli svo framfylgja stjórnarskrárbundnu ákvæði með jöfnun atkvæðisréttar í fyrsta lagi og í öðru lagi jöfnu kynjahlutfalli í almennum lögum. Þau eiga svo að víkja þegar þar að kemur. Þetta er ein af greinunum í þessu frumvarpi sem stenst enga skoðun. Það er fínt að við þingmaðurinn erum sammála um það.

Annað sem ég var mjög ánægð með sem hv. þm. Íris Róbertsdóttir minntist á í ræðu sinni er 57. gr. um meðferð lagafrumvarpa. Hvað þýðir að binda í stjórnarskrá að lagafrumvörp megi ekki samþykkja á þinginu fyrr en eftir minnst tvær umræður á Alþingi? Erum við með einhver frumvörp til laga sem eru minna áríðandi og þurfa bara tvær umferðir? Erum við með einhver mikilvæg frumvörp sem þurfa kannski fjórar umferðir? Það er ekki hægt að skilja ákvæðið svona eftir í lausu lofti. Minnst tvær umferðir? Erum við kannski að fara að ræða einhver frumvörp í tíu umferðum?

Þarna birtist enn á ný að stjórnarskrá verður að vera skýr og skilmerkileg og ekki skilja eftir vafaatriði og túlkunaratriði eftir „behag“. Þess vegna hef ég stundum sagt í gríni að það er verið að kratavæða þessa stjórnarskrá. Það hefur komið fram sem skoðun mín að þetta er stjórnarskrá vinstri manna. Ég sé hreinlega fram á ringulreið verði þessu plaggi ekki breytt til samræmis við núgildandi stjórnarskrá og hún endurskoðuð með tilliti til þessa frumvarps.