141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er tímabært að Alþingi fái nú tækifæri til að ræða efnislega þær tillögur sem liggja fyrir. Enginn vafi er á því að um er að ræða gríðarlega miklar fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands. Ég vildi sagt hafa fyrst í upphafi máls míns að það sem vekur mér ugg og áhyggjur er að gangi það eftir að jafnumfangsmiklar breytingar verði gerðar mun það án vafa skapa heilmikla réttaróvissu í landinu á meðan er að myndast dómafordæmi í Hæstarétti fyrir túlkunum á þeim nýju greinum stjórnarskrárinnar sem samþykktar verða, gangi mál fram með þeim hætti, og einnig á breytingum á núverandi ákvæðum í stjórnarskrá.

Er skemmst að minnast þess sem gerðist þegar mannréttindakafla núverandi stjórnarskrár var breytt árið 1995, þau dómsmál sem spruttu af þeirri breytingu voru fjölmörg og höfðu mikla þýðingu og áhrif. Með öðrum orðum, það tekur tíma að mynda sameiginlegan skilning og búa til dómafordæmi og það er einmitt þannig sem stjórnarskrár fá gildi sitt. Þær verða verðmeiri ef svo má segja með tímanum eftir því sem meira reynir á þær, eftir því sem álagsprófið er stærra.

Virðulegi forseti. Í 57. gr. frumvarpsins er kveðið á um meðferð lagafrumvarpa. Ég er reyndar ekki sannfærður um að skynsamlegt sé að fækka umræðum á þinginu niður í tvær. Það var hér áður þegar þingið starfaði í tveimur málstofum að báðar deildir þingsins þurftu að fara í gegnum lagafrumvörp. Þegar deildirnar voru sameinaðar í eina skapaðist í það minnsta hætta á því að frumvörpin færu hraðar í gegn, minna væri búið að skoða þau, ekki færi fram jafngagnrýnin umræða o.s.frv. Ég held að með fækkun úr þremur umræðum í tvær stígum við ekki skref í rétta átt.

Virðulegi forseti. Í sömu grein er kveðið á um að lagt skuli einhvers konar heildarmat eða mat á áhrifum lagasetningar og það skuli fylgja frumvörpunum. Ég held að það sé til bóta og ágætt, ég vil taka það fram. En ég bendi á að við erum enn í þeirri stöðu að nokkuð vantar á að slíkt mat liggi fyrir á þau drög sem við ræðum og er þá um að ræða sjálfa stjórnarskrána.

Ég er ánægður með að standa skuli til að senda ákveðna þætti þessa máls til Feneyjanefndarinnar svokölluðu og leita eftir áliti þeirrar nefndar. En enn bíður það verk að leitast við að búa til einhvers konar heildstætt mat á áhrifum allra þessara breytinga því þær eru fjölmargar.

Virðulegur forseti. Ég hef áður nefnt hugmyndir sem liggja að baki 34. gr. þessara draga að stjórnarskrá sem snúa að náttúruauðlindum og nýtingu þeirra. Þar er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál þjóðarinnar hvernig við höldum þar á. Í stjórnarskrá er talað um að fullt gjald komi fyrir þegar ríkið leigir frá nýtingarrétt. Þá stöndum við auðvitað frammi fyrir — og ég vil segja að ekki er einfalt að finna hið rétta gjald, að það sé fullt gjald fyrir, það er ekki alveg hlaupið að því. Mér þykir nokkuð á skorta að það sé rætt nægilega í greinargerðinni hvernig menn hugsi nákvæmlega slíka gjaldtöku. Á hvaða grundvelli er slík gjaldtaka? Er verið að taka fullt gjald fyrir einhvers konar grunnrentu auðlindarinnar eða er líka verið að taka gjald miðað við þá verðmætaaukningu sem orðið hefur vegna athafna einstaklinga og fyrirtækja þeirra?

Virðulegi forseti. Í þeirri grunnhugmynd sem liggur að baki og kennd er við georgismann var sú hugsun að það væri einhvers konar jarðrenta óháð því hvernig jörðin hafði verið ræktuð. Það væri sú renta sem hlyti að renna til hinna sameiginlegu sjóða, en jarðarbætur og annað slíkt sem einstaklingurinn legði fram eða legði á sig við að vinna, afraksturinn, rynni til viðkomandi einstaklings, en það er þessi grunnrenta.

Þegar talað er um fullt gjald í þessum drögum, hvað er þá verið að ræða? Er verið að ræða það að reynt sé að finna þessa grunnrentu, og þá hvernig? Við höfum reyndar rætt það í þinginu þegar kom að því að finna út svokallað auðlindagjald. Eða er verið að tala um rentuna af allri auðlindinni og þá að viðbættum þeim verðmætum sem hafa myndast vegna fjárfestinga og athafna einstaklinga?

Virðulegur forseti. Þetta skiptir nú aldeilis máli. Við erum að tala um stjórnarskrána og grundvallarauðlindir okkar Íslendinga og um leið grundvöllinn að efnahagsstarfsemi þjóðarinnar. Ég hef verið þeirrar skoðunar hvað varðar stjórnarskrárákvæði um nýtingu náttúruauðlinda að mestu skiptir að taka það fram að náttúruauðlindir skulu nýttar með almannahagsmuni að leiðarljósi og á sjálfbæran hátt. Þar með er tryggð tenging á milli kynslóða með sjálfbærninni og um leið líka að með þetta sé farið þannig að almannahagsmunir séu tryggðir. Ég er á þeirri skoðun að það sé best gert með því að skapa eignarrétt á nýtingarréttinum o.s.frv. en auðlindin sjálf sé í eigu ríkisins eða í umsjá ríkisins, því að ég er, eins og ég hef oft rætt um, virðulegi forseti, ekki sammála þessu hugtaki um þjóðareign. En látum það nú vera.

Virðulegi forseti. Í ákvæði um kosningarrétt, svo ég fari nú úr einu í annað, er sú nýlunda að verið er að opna á persónukjör. Einnig var það svo í kosningum eða skoðanakönnun sem fór hér fram, hvort heldur sem menn vilja kalla það, hvað varðar þær spurningar sem lagðar voru fram því að þar var ekki um eiginlega atkvæðagreiðslu að ræða, þá virðist hafa komið fram meirihlutavilji fyrir því að einhvers konar persónukjör sé viðhaft við kosningar til Alþingis. Í sömu lagagrein er líka sagt að með lögum skuli kveðið á um það þannig að tryggt sé eins og kostur er jafnrétti kynjanna við kosningar.

Ég tel að það muni töluvert miklu skipta hvernig það verður útfært. Hvernig mun það fara saman, annars vegar persónukjör þar sem hver og einn getur merkt við þann einstakling sem viðkomandi vill að fari á þing og sitji á Alþingi fyrir sína hönd, og hins vegar reglur um einhvers konar fléttulista þar sem tryggt er að jafnrétti kynjanna sé náð?

Virðulegi forseti. Hvernig skyldi halda á og fara með ef til dæmis kæmu fram listar einungis skipaðir körlum eða konum, eitthvert karlaframboð eða kvennaframboð? Annað eins hefur nú gerst. Hvernig mundum við fara með það miðað við þessa fyrirhuguðu kosningalöggjöf? Ég hef verulegan áhuga á að heyra það. Kannski eru einhverjar góðar lausnir á því og ég er spenntur að heyra þær, ég er tilbúinn til að hlusta. Ég vil gjarnan fá að heyra hvernig það er allt saman hugsað.

Ég hef verið í hópi þeirra sem hafa verið á móti persónukjöri. Ég hef ekki séð neinn sérstakan akk í því fyrir samfélagið að auka á persónupólitík, að lagt verði meira upp úr persónu manna en stefnumálum stjórnmálaflokkanna. Við bjuggum við slíkt kerfi áður en stjórnmálaflokkarnir urðu til og þeir sem þekkja sögu þessa þings vita þá líka væntanlega að sú klíkumyndun og sú tegund af pólitík sem það bauð upp á þótti ekki sérstaklega heppileg. Það er ekki allt unnið með því að taka upp persónukjör. Það er víst alveg ábyggilegt.

Virðulegi forseti. Síðan er það ákvæði 91. gr. um vantraust sem mér finnst vera nokkuð áhugavert mál. Hvers vegna skiptir það máli, sé vantraust borið upp, að þá sé nauðsynlegt að leggja til einhvers konar forsætisráðherraefni í stað þess sem vantraustinu er beint að? Ég er nokkuð klár á því, virðulegi forseti, að þetta dregur úr því að vantraustsvopninu sé beitt. En er það svo í þingsögu okkar undanfarna áratugi að það hafi verið mjög algengt, og jafnvel ef við horfum til nýliðinnar sögu, að reynt sé að bera upp að tilefnislausu vantraust hér í þinginu? Þvert á móti, virðulegi forseti, hafa menn farið varlega með það meðal annars vegna þess að stjórnarandstaða hvers tíma, sem telur að jafnvel sé að fjara undan ríkisstjórn eða forsætisráðherra eða einstökum ráðherrum, fer varlega með það að kalla eftir vantrausti þar sem það hefur þótt vera nokkuð til þess fallið að þjappa stjórnarliðinu saman. Á árum áður, áður en flokkakerfið myndaðist, var mjög oft uppi vafi um það á Alþingi hvort viðkomandi ráðherrar nytu trausts þingsins vegna þess að hér voru ekki stjórnmálaflokkar með hefðbundnum hætti eins og við þekkjum þá heldur meira lausbeisluð samtök þingmanna sem gerðu það að verkum að vantraust voru mjög algeng á fyrstu árunum og á árunum eftir að heimastjórn var komið á.

Virðulegi forseti. Hvers vegna var það? Jú, vegna þess að talið var nauðsynlegt vegna þingræðisins að kalla fram hvort viðkomandi ráðherrar eða ríkisstjórn nytu trausts alls þingsins, hefðu meiri hluta þingsins að baki sér og þingræðisstjórn væri í raun og veru að störfum. Ég er þeirrar skoðunar að því lengra sem við förum í átt að persónukjöri séum við að ýta meira undir það og meiri líkur verði á því að menn muni kalla eftir vantrausti til að ganga úr skugga um hvort viðkomandi ríkisstjórn og/eða einstakir ráðherrar hafi traust þingsins. Sé það hugsun þeirra sem settu saman þessi drög má segja að skynsamlegt væri að gera þá kröfu að þeir sem bera fram vantraust beri þá um leið líka fram forsætisráðherraefni. Vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þeim tilvikum muni fjölga þar sem það verði í raun og veru nauðsynlegt að láta reyna á vilja þingsins hvað varðar viðkomandi ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Það er nú ekki mikið eftir af tíma mínum. Ég vil ítreka eftirfarandi: Það er nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnarskránni en það er rangt sem haldið hefur verið fram ítrekað að Sjálfstæðisflokkurinn standi í vegi fyrir breytingum á stjórnarskránni og það er rangt sem hefur verið haldið fram aftur og aftur að engar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni, í það minnsta engar sem skipta máli. Ég er þeirrar skoðunar að breyta eigi stjórnarskrám hægt. Og þegar sagt er að alltaf hafi staðið til að breyta stjórnarskránni heildstætt vil ég segja: Með því að gera það jafnt og þétt yfir langan tíma erum við að breyta stjórnarskránni. Þá erum við að fara yfir öll þau ákvæði sem við teljum að þurfi að breyta og auðvitað geta skoðanir manna á því breyst eftir því sem tíminn líður fram. Það sem eitt sinn þótti vera í lagi þykir það ekki síðar. En að fara þá aðferð sem við höfum viðhaft við þetta mál, að henda í rauninni öllum ákvæðunum upp í loft og vonast til þess að niður komi heilsteypt og örugg stjórnarskrá, það er ekki aðferð sem mér hugnast, virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður og endurtek það og ítreka.

Það er gott fyrir okkur núna að hafa álit lögfræðinganna um hin lagatæknilegu atriði en ég hefði gjarnan viljað að við gæfum okkur góðan tíma. Og ég gef mér það að sú nefnd sem með málið fer, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, muni í raun og veru leiða fram einhvers konar álagspróf á heildina á þessi drög þannig að við fáum til dæmis eitthvert mat á hvað það þýðir nákvæmlega fyrir okkur ef við samþykkjum ýmis ákvæði í mannréttindakaflanum eins og þau eru orðuð þar, hvaða áhrif það getur haft til dæmis á einkarétt, ekki bara á almannarétt samanber 5. gr. og 9. gr. frumvarpsins (Forseti hringir.) þar sem menn verða að velta því fyrir sér hvort þetta breyti réttarstöðu manna og þá með hvaða hætti.