141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér hefur fundist þessi umræða vera töluvert mikið eins og við séum að ræða einhverja verndaráætlun, ekki nýtingaráætlun líka. Reyndar finnst mér áætlunin bera þess keim að vera fyrst og fremst plagg til að vernda ákveðin svæði í staðinn fyrir að reyna að velja á mikilli hvað sé skynsamlegt að nýta og hvað ekki. Þetta er að mínu viti pólitísk áætlun. Þetta er áætlun núverandi ríkisstjórnar eins og hv. þingmaður orðaði það svo skemmtilega einhvers staðar. Breytingar sem orðið hafa undanfarið eru vitanlega hrossakaup milli stjórnarflokkanna, við vitum það, það er um að gera að segja það eins og það er.

Það er áhyggjuefni að mínu viti að í þessari áætlun eru eingöngu um 63 megavött af vatnsafli sett í nýtingu en nærri þúsund megavött af jarðhita eru sett í nýtingarflokkinn. Vatnsaflið þekkjum við vitanlega miklu betur, eins og allir vita.

Ég held hins vegar að mikið sé hægt að læra af öllu þessu ferli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi heyrt sömu gagnrýnisraddir og ég hef heyrt á ferlið allt, á ferli verkefnisstjórnarinnar og vinnuhópanna, á þá mælikvarða sem þar voru notaðir í sumum hópum og jafnvel ekki öðrum o.s.frv., hvort hv. þingmaður hafi orðið var við slíka gagnrýni. Ég held nefnilega að vinna verkefnisstjórnarinnar eða faghópanna, þó svo menn hafi komist að ágætri niðurstöðu, sé alls ekkert hafin yfir gagnrýni. Menn mega ekki vera feimnir við að ræða það ef þeir hafa einhverjar skoðanir á því. Ég velti fyrir mér hvort aðferðafræðin hafi endilega verið nógu skýr eða rétt og hvort komið hafi fram gagnrýni á hana.

Annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann er: Hvað þýðir það ef Alþingi fer að tillögu sjálfstæðismanna um að vísa þessu aftur til verkefnisstjórnarinnar? Mun það (Forseti hringir.) tefja málið eða gefa okkur svigrúm til að vinna málið betur?