141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru margar spurningar. Ég ætla að reyna að taka þær í öfugri röð. Ég held að það þurfi ekki að tefja málið neitt óskaplega mikið. Við skulum horfa svo á að þær breytingar sem gerðar voru af hálfu ráðherranna voru rökstuddar með tilteknum hætti. Reyndar eru í einhverjum öðrum tilvikum líka komin fram ný gögn. Það er auðvitað fyrst og fremst það sem verkefnisstjórn þarf að skoða en ekki að endurskoða alla vinnuna við alla virkjunarkostina, auðvitað ekki. Það þarf sem sagt að skoða þau nýju gögn sem eru talin hafa komið fram, ný sjónarmið eða rök sem hafa komið fram og meta hvort eitthvað hafi breyst frá því að formannahópurinn, verkefnisstjórn og faghópar skiluðu af sér á sínum tíma. Það held ég að eigi ekki að taka langan tíma. Það þarf ekki að bíða gerðar næstu rammaáætlunar, eins og mér finnst hv. þm. Mörður Árnason vera að tala um. Svo er ekki.

Í annan stað vildi ég taka undir með hv. þingmanni því að ég hef nokkrar áhyggjur af hinu mikla misvægi sem mér sýnist vera milli jarðvarmavirkjananna annars vegar og vatnsaflsvirkjananna hins vegar. Ég vakti athygli á því hér í ræðu minni að mér þætti það svolítið sérstakt. Ég ætla ekkert að ýja að því að það sé einfaldlega vegna þess að þeir sem tillöguna gerðu telji að jarðvarmakostirnir séu sumir hverjir ólíklegir til þess að verða að veruleika, meðan vatnsaflskostirnir eru þannig að hægt væri að komast í þá með tiltölulega skömmum fyrirvara. Ég er ekki að gera að því skóna, en mig vantar einhverjar skýringar á því hvers vegna þetta misvægi er. Með þessu er ég ekki að segja, eins og mér fannst hv. þm. Mörður Árnason vera að gera hérna áðan, að ég leggist gegn þessum jarðvarmakostum, t.d. á Reykjanesskaga og reyndar fyrir norðan líka, alls ekki. Mér finnst bara ekki samræmi í (Forseti hringir.) aðferðafræðinni hvað þetta tvennt varðar.