141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur eðlilega eftirtekt að svo margir kostir fyrir jarðvarma eru settir í nýtingarflokk miðað við vatnsafl. Auðvitað er ósköp eðlilegt að menn velti fyrir sér af hverju það er því að þekking okkar liggur fyrst og fremst í því að búa til vatnsaflsvirkjanir, þó svo við þekkjum jarðvarma ágætlega líka. Ég held að flestir séu sammála um að það þurfi meiri þekkingu og meiri tíma til að læra meira um jarðhitann.

Allt á þetta á endanum að snúast um hvað er skynsamlegt að nýta og hvað er skynsamlegt að vernda, ekki öfgar í báðar áttir, það er aldrei gott. Mér finnst hins vegar eins og öfgar ráði ákveðnum hlutum í þessu, eins og þegar talað er um Norðlingaölduveitu sem er fáránlegt að menn skuli leggjast gegn, ég skil það ekki.

Virðulegi forseti. Ég held að vinnubrögð stjórnarflokkanna við þetta mál muni á endanum leiða til þess að það verði tafir, bæði á því að geta verndað ákveðin svæði og tafir á því að geta nýtt ákvæðin svæði, vegna þess að mér finnst í rauninni augljóst að sú þingsályktunartillaga sem hér á að leggja fram, og mér finnst að ég verði að segja það þótt það hljómi ótrúlega, þ.e. ef allir þingmenn stjórnarflokkanna ætla sér að samþykkja þetta plagg eins og það liggur fyrir, kalla á nýja þingsályktunartillögu mjög fljótlega því að það er ekki hægt að búa við þetta eins og það er.

Ég minni á, ef hv. þingmaður hefur tök á eða einhverja skoðun á því sem ég spurði að varðandi vinnubrögðin og annað sem var … (Forseti hringir.)