141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ýmislegt sem er nú í biðflokki, ég nefni til dæmis Skjálfandafljót og jökulsárnar í Skagafirði, eigi klárlega heima í vernd en ekki bið. Ég hef hins vegar ekki gert tillögur um það sérstaklega vegna þess að ég ætla að leyfa mér að treysta þessu ferli og ekki grafa undan því, treysta því að sú málefnalega niðurstaða verði að lokum einmitt hin rétta, þ.e. að þetta fari í vernd.

Með sama hætti hef ég ekki hér talað fyrir því að þessi tilteknu svæði á Reykjanesskaga sem ég hef nefnt, Sveifluháls, Sandfell, Eldvörpin og Stóra-Sandvík, fari í vernd heldur í bið. Það er samkvæmt þeim lögum sem Alþingi setti samhljóða þar sem skýrt kemur fram að ef upplýsingar skorti eigi svæði að fara í bið. Ef ekki skortir upplýsingar um þessi svæði og þessar jarðvarmavirkjanir í svona mikilli nánd við höfuðborgarsvæðið, hvar skortir þær þá? Óvissan og upplýsingaskorturinn blasir við.

Ef ég fengi að ráða mundi ég sannarlega setja Sveifluháls í vernd, Krýsuvíkursvæðið sérstaklega. Ég er samt ekki að gera tillögur um það, heldur að segja: Fylgjum því sem Alþingi hefur nú þegar sagt samhljóða, þegar uppi er óvissa, þegar upplýsingar vantar sem og frekari þekkingu og jafnvel grunnrannsóknir, eigum við að setja svæði í bið. Þarna finnst mér alveg sérstaklega þessi svæði á Reykjanesskaganum hrópa á okkur.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þótt svæði sé sett í nýtingu er ekki allt komið af stað einn, tveir, þrír. Gröfurnar og tækin eru ekki umsvifalaust mætt á staðinn, en það er samt viljayfirlýsing (Forseti hringir.) til lengri tíma. Þess vegna erum við að fara í þetta rammaáætlunarferli, annars gætum við bara sagt: Umhverfismat og allir aðrir hlutir taka á þessu. (Forseti hringir.) En þetta er viljayfirlýsing um hvernig við viljum sjá þessi svæði til framtíðar.