141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:26]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það kann að vera að í sumum tilfellum fari saman þessi orkunýting og ferðaþjónusta. Mig langar hins vegar að vekja athygli hv. þingmanns á því að Samtök ferðaþjónustunnar telja einmitt svo alls ekki vera á þessu gríðarlega verðmæta Krýsuvíkursvæði. Þau leggjast alfarið gegn því að Sveifluhálsinn fari í nýtingu (Gripið fram í.) og segja: Þarna er verið að grafa undan (Gripið fram í.) framtíðarmöguleikum til uppbyggingar í ferðaþjónustunni. Það held ég að blasi við öllum sem líta á yfirlitsmyndir af því hvernig fólk sér þetta fyrir sér þarna.

Þá komum við að rannsóknum og tilraunaborunum. Til þess að rannsaka háhitasvæði þarf að fara inn í þau, þá eru menn að raska þeim á svo margan hátt. Allt sem hefur gerst á Þeistareykjum er í þágu rannsókna. Á háhitasvæðum sérstaklega þurfum við að fara svo varlega. Menn segja að það sé allt í lagi að rannsaka þetta og gera tilraunaboranir en það þýðir í reynd að við erum að skerða þessi svæði. Við erum að raska þeim og þá erum við einmitt, eins og kemur svo skýrt fram hjá ferðaþjónustunni, að raska þeim á kostnað annarra þeirra sem vilja nýta þau öðruvísi.

Hvað með íbúa höfuðborgarsvæðisins sem vilja nýta þetta svæði til útivistar? Ferðaþjónustan sér þarna framtíðarsvæði þegar önnur svæði okkar hafa sprengt utan af sér. Það verður að fara að byggja upp önnur svæði sem við getum beint ferðamönnum og útivistarfólki okkar á.

Þarna ber okkur einmitt sérstök skylda til að fara varlega. Þegar saman kemur öll óvissan í kringum jarðvarmavirkjanirnar sem blasir við (Forseti hringir.) á öllum þessum stöðum svo alvarlega og um leið þetta ótrúlega dýrmæta svæði sem er einstakt á heimsvísu eins og hv. þingmaður þekkir (Forseti hringir.) er rangt að setja það í nýtingarflokk.