141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:29]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda. Vissulega er það mikilvægur liður í frekari sátt að biðflokkur sé sem stærstur, ekki síst vegna þess að þá er verið að sýna svart á hvítu fram á að það er náttúran sem nýtur vafans. Það er ekki verið að æða áfram og virkja án þess að búið sé að rannsaka, eins og mjög margir hér á Alþingi vilja gera.

Ég átta mig ekki á þessari — ég leyfi mér einfaldlega að kalla það virkjanaáráttu. Ég átta mig til dæmis ekki á því sem ég leyfi mér að kalla virkjanaáráttu Sjálfstæðisflokksins vegna þess að það hefur lengi verið samhljómur í hugsun íhaldsmanna og náttúruvernd. Íhaldsmenn hafa í gegnum áratugina og aldirnar verið talsmenn náttúruverndar. En hjá þeim Sjálfstæðisflokki sem er á Íslandi í dag örlar ekki á einu grammi af náttúruvernd, alla vega ekki hér inni á Alþingi. Þó að komið hafi fram að hugsanlega séu kjósendur flokksins grænni hef ég ekki enn heyrt það hér hjá neinum sjálfstæðismanni á þingi að þeir vilji frekar vernda svæði en virkja þau. Því miður, segi ég. Ég hef lengi talað fyrir því að til staðar þurfi að vera alvöru flokkur borgaralegrar hugmyndafræði vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé það ekki. Sá flokkur mundi að sjálfsögðu taka til sín umhverfisþenkjandi hægri menn því að það er svo sannarlega nóg til af þeim þó að hugmyndir þeirra fái ekki framgang á Alþingi Íslendinga. En það er þá kjósenda Sjálfstæðisflokksins að ráða fram úr því í sínum prófkjörum og í þeim kosningum sem fram undan eru.