141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að bæta við vegna þess svars sem ég veitti hér áðan um 1. gr. um nefndarmann sem forfallaður er. Ástæða þess að forsætisnefndin er þarna inni í stað forseta er að skipan nefndarinnar er ákveðinn samráðsvettvangur, en þarna er verið að setja forsætisnefnd inn til að hægt sé að ganga hratt og örugglega til verka ef nefndarmaður forfallast. Ég beini þeim tilmælum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að skoða þetta.

Hvað varðar seinna andsvar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur get ég heils hugar tekið undir það. Það er ljóst að umfang þeirra verkefna sem þær rannsóknarnefndir sem nú eru að störfum hafa tekið að sér virðist hafa verið bæði tímalega og fjárhagslega stærra og meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Þegar þær hafa skilað af sér held ég að það sé þarft að við förum yfir lögin og ræðum af heiðarleika og hreinskilni hvort okkur þyki ástæða til að kveða frekar á um tímamörk, kostnað og annað í þeim dúr og umfang rannsóknanna til þess að þingið sjálft hafi eitthvað í höndum þegar það er að leggja til rannsóknarnefndir. Við getum vart unað því að þurfa að kalla eftir hundruðum milljóna til viðbótar við þann kostnað sem áætlaður er í upphafi við hverja nefnd af því að umfang rannsóknarinnar hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi.

Virðulegur forseti. Ég tek því heils hugar undir með hv. þingmanni að að lokinni vinnu þeirra rannsóknarnefnda sem starfa nú, sem eru af öðrum toga en rannsóknarnefnd Alþingis, sé eðlilegt að þingið skoði lögin. Hins vegar legg ég áherslu á að þetta frumvarp fái sem hraðasta umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna þess að tímasetning þess skiptir máli.