141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er í takt við það sem ég hélt, en hv. þingmaður þekkir auðvitað miklu betur til í Skagafirði en sá sem hér stendur. Það olli mér líka nokkurri umhugsun þegar sú niðurstaða lá fyrir að virkjanirnar í Skagafirði væru ekki í nýtingarflokki heldur í biðflokki. En ég játa það að persónulega hef ég ekki mikla þekkingu á þeim virkjunarsvæðum og hef skoðað færri rök fyrir og gegn þessum framkvæmdum en í ýmsum öðrum tilvikum. Áhugi minn beindist fyrst og fremst að þeirri breytingu sem átti sér stað í meðförum ráðherranna. Segja má segja að málið hafi farið nokkuð undir radarinn hjá mér.

Ég vildi, í tilefni af orðum hv. þingmanns um að setja málið til ríkisstjórnarinnar, nefna að það er rétt hjá honum að sem neyðarúrræði kann þetta að vera (Forseti hringir.) skárra en að tillagan verði samþykkt óbreytt. En ég vona að við getum náð að breyta stefnu málsins (Forseti hringir.) áður en kemur að afgreiðslu þess.