141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þær vangaveltur, hugmyndir og sóknarfæri sem hv. þingmaður sér í mörgum atvinnugreinum eru góðra gjalda verð og við getum verið sammála um þau sóknarfæri sem þarna liggja. Á sama tíma erum við að glíma við að veita aukna fjármuni inn til heilbrigðiskerfisins, svo dæmi sé tekið, þar sem hjúkrunarfræðingar fá margfalt lægri laun en gengur og gerist í nágrannaríkjunum.

Gagnrýnin á fjárlagafrumvarpið sem var með miklum útgjaldaauka fól það meðal annars í sér að það væri ekki innstæða fyrir þessari útgjaldaaukningu. Það er auðvitað gagnrýni sem við verðum að taka til okkar. Þrátt fyrir góðan vilja hjá ríkisstjórninni til að veita aukna fjármuni inn í atvinnugreinar langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður virkilega að á næstu fjórum árum muni þeir fjármunir sem þessi ríkisstjórnin veitti inn, sem eru ekki svo gríðarlega háar fjárhæðir, veita hér inn 270 milljarða, skapa 4–6% hagvöxt og 5 þús. ársverk? (Forseti hringir.) Það breytir engu um það að halda rammaáætlun óbreyttri varðandi framtíðarsýn hv. þingmanns. Sú (Forseti hringir.) rammaáætlun sem var hér áður styrkir einmitt skoðun hv. þingmanns.