141. löggjafarþing — 56. fundur,  19. des. 2012.

lækningatæki.

67. mál
[11:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur það markmið að styrkja og efla eftirlit með lækningatækjum á markaði með það að leiðarljósi að öryggi sjúklinga og annarra notenda lækningatækja sé sem best tryggt. Það er ágætismarkmið. En hins vegar er ljóst, og það er afstaða okkar sem ritum undir nefndarálit minni hlutans, að hér er um að ræða gjaldtöku sem hefur á sér ásýnd skattheimtu. Hér er einfaldlega um skattheimtu að ræða.

Síðan fagna ég yfirlýsingu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns nefndarinnar um að málið verði tekið inn í nefndina til athugunar milli umræðna vegna þess að þeir tollflokkar sem sæta eiga þessu gjaldi eru allt of víðtækir. Að mínu mati er ekki hægt að rökstyðja það með nokkrum hætti að bleiur, dömubindi, tannþráður og smokkar eigi að heyra undir þetta eftirlitsgjald sem er ekkert annað en skattur og mun leiða til þess að vöruverð þessara nauðsynjavara fyrir hvert einasta íslenska heimili munu hækka.