141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:44]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum nú atkvæði við 3. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013. Þetta eru síðustu fjárlög sem afgreidd verða á þessu kjörtímabili. Þau bjóða upp á tekjur ríkissjóðs upp á rétt tæpa 580 milljarða kr. og útgjöld upp á tæplega 583 milljarða. Með öðrum orðum, hallinn á rekstri ríkissjóðs, ef ég hef lagt rétt saman miðað við breytingartillögur, er innan við 4 milljarðar, 3,6–3,7 milljarðar kr. Það er innan við 0,2% af vergri landsframleiðslu.

Írar eru að berja saman fjárlög og það eru fréttir af erfiðum aðgerðum þar til að koma halla írska ríkisins niður í 8,5% af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Þetta er gífurlegur árangur sem hér hefur náðst og það hlýtur að vera ánægjuefni okkur þingmönnum öllum sem höfum ýmist stutt eða verið á móti erfiðum en óumflýjanlegum aðgerðum til að komast þangað sem við erum komin, að sjá að við erum að loka fjárlögum fyrir árið 2013 (Forseti hringir.) nánast án halla. (Gripið fram í.)