141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[11:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Menn fóru af stað með þetta mál til að mæta manneldismarkmiðum og það endaði á því að nú er þetta orðið skattaívilnun fyrir karamellur og súkkulaði. Sem mótvægisaðgerð á að afnema vörugjöld af reiðhjólum sem ég held að sé afskaplega mikilvægt því að fólk þarf auðvitað að vera duglegt að hjóla ef það er mikið að borða karamellur og súkkulaði.

Tollverðir hafa skrifað um þetta og vil ég lesa hér upp lokaorð úr grein eftir Guðbjörn Guðbjörnsson. Hann bendir á, væntanlega út af einfölduninni, að sætuefni er núna orðið dýrasta vara landsins. Hann segir, með leyfi forseta:

„Gjöldin af sætuefni eru nær tvöfalt hærri en af sígarettum og fjórfalt hærri en af áfengi. Auðvelt er að smygla þessari munaðarvöru til landsins og hugsanlega þyrfti að þjálfa nýja leitarhunda sem yrðu sérhæfðir í leit að sætuefni.“

Það yrðu væntanlega sætuhundar. Svo hafa menn bent á að hugsanlega væri betra að fá nammigrísi til að fylgjast með sætuefninu en ég ætla ekkert að tjá mig um það. (Forseti hringir.) Ef þetta er einföldun (Forseti hringir.) vildi ég ekki sjá ef þau ætluðu að flækja málin. [Hlátur í þingsal.]