141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[17:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er spurning hvort það sé orðin algjör regla hjá þessari ríkisstjórn að þegar hæstv. ráðherrar eru ekki alveg sammála vilja þingsins komi þeir með frumvarp um að fresta málum aftur og aftur. Vilji þingsins lá alveg fyrir. Það var tekið … (Gripið fram í: Því færri frumvörp, því betra.) Virðulegi forseti. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra sem er í salnum og ætti nú að tala í þessu máli sé sammála mér um að þetta gengur einhvern veginn út á að við náum niðurstöðu í þinginu og síðan er það framkvæmdarvaldsins að fylgja niðurstöðunni eftir. Þessi ríkisstjórn kom með alveg nýja leið. Ef þeir eru ekki sáttir við niðurstöðuna eru lögin samþykkt og síðan frestað út í hið óendanlega. Við greiddum held ég atkvæði um Sjúkratryggingar Íslands. Þar eru menn búnir að fresta því til 2009, 2010, 2011, 2012. Er ætlunin sú sama hér ef svo óheppilega vildi til að menn verði áfram í ríkisstjórn? Á að fresta þessu á hverju einasta ári?

Áætlunin lá alveg fyrir þegar þetta var samþykkt fyrir ári síðan eða hvenær það var. Það er þá sem menn áttu að fara að undirbúa þetta. Svo koma þeir hér og segja: Við erum með allt niður um okkur og það þarf að fresta þessu aftur. Það er ekkert boðlegt. Þetta var réttarbót og eitthvað sem var mjög vel farið yfir, ekki bara í þinginu heldur í þjóðfélaginu. Það er algjörlega fráleitt að fresta því.

Ég treysti því að tillagan verði felld.