141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Á þessu kjörtímabili hafa komið fram óvenjumörg mál þar sem miklu skiptir að horft sé til langs tíma, mál sem eru þannig efnislega séð að almennt er góð sátt um það í stjórnmálunum að menn eigi að vinna þau á faglegum grundvelli og án pólitískrar stefnumörkunar sem ræður í ríkisstjórn hverju sinni.

Ég gæti nefnt landsdómsmálið, en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ákvað að fara í pólitísk réttarhöld. Ég gæti nefnt stjórnarskrána, en ríkisstjórnin ákveður að leggja áherslu á stefnumál sín í þeim málaflokki og er reyndar komin alveg út í skurð. Ég gæti nefnt grunnatvinnuvegina og umgjörðina um þá og ég gæti nefnt ákvarðanir um það hvar eigi að virkja, hvar eigi að vernda og hvað eigi að rannsaka betur þegar horft er til virkjunarkosta í landinu. Í því máli vill þannig til að við höfum sérstaklega sett í lög að fylgja eigi fyrir fram ákveðnu ferli og byggja niðurstöðuna á faglegum forsendum. En í því máli, eins og öllum hinum, hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara sömu leiðina, þ.e. að láta afl atkvæða ráða úrslitum.