141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[15:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Aldrei of seint, segir hæstv. menntamálaráðherra. Nú ítreka ég það sem ég sagði áðan: Það er búið að skrifa undir samning. Hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir samning fyrir hönd íslenska ríkisins. Það vill svo til að hann er líka formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þannig að það hefði verið leikur einn fyrir hann að draga þá undirskrift á langinn ef hann teldi að þessi stefna væri ekki sú sem flokkur hans stæði fyrir. Ég vek athygli á því, eins og fram hefur komið í fréttaskýringum, að þetta eru engir smáfjármunir. Þau fyrirtæki sem hafa skrifað undir samninginn í góðri trú halda að þau hafi gert samning við ráðherra sem ætli sér að standa við hann.

Nú eru umræður um að það eigi að skoða hitt og þetta, en þeir fyrirvarar eru í samningnum. Spurningin er þessi: Telur hæstv. menntamálaráðherra það ekki kristaltært (Forseti hringir.) að finnist þarna olía verði hún nýtt samkvæmt þeim samningi sem fyrirtækin hafa gert við íslenska ríkið og hæstv. atvinnuvegaráðherra skrifaði undir?