141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

viðbrögð lögreglu við ásökunum um barnaníð.

[15:33]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að skipaður skuli verða hópur til að búa til verklagsreglur því að þær virðast sannarlega ekki hafa verið til. Það er mjög alvarlegt mál vegna þess að þetta eru einhver alvarlegustu brot sem hægt er að fremja.

Heyrst hefur frá lögreglunni undanfarið að hún þurfi fleiri heimildir til hlerana, hún þurfi að fá vopn og hún þurfi að fá varnarbúnað. Ekkert af slíkum græjum mundi gagnast í svona málum. Ég spyr: Er fjölgun lögreglumanna kannski aðalmálið í þessu efni? Fjöldi kæra kemur inn á borð til lögreglu og er ekki sinnt, ekki einu sinni svona alvarlegum málum, vegna manneklu. Er það ekki besta leiðin til að koma betra skikki á löggæslu í landinu og réttarríkið að fjölga lögreglumönnum? Þeim hefur fækkað og þeir eru fáliðaðir.

Eins langar mig að beina því til ráðherra hvort hann sé reiðubúinn til að gefa þinginu skýrslu um þær kærur sem lagðar eru fram til lögreglunnar, hvaða hlutfall þeirra fer áfram í kerfinu og hversu langt þær fara, til þess að þingheimur geti áttað sig betur á því hver staða lögreglunnar er þegar kemur að kærum sem verða kannski aldrei að neinu.