141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau ná. Það er mjög mikilvægt að ráðherra svari því með hvaða hætti eigi að taka á þeim hækkunum sem boðaðar eru frá og með áramótum. Ég nefni farþegaskatt, lendingargjald og yfirflugsgjald. Hver á að bera þessi gjöld?

Eftir að Isavia sem hefur með rekstur flugvallanna að gera var einkavætt eða breytt í opinbert hlutafélag hefur það fengið sjálftökurétt á gjöldum og kröfum á hendur bæði minni og stærri flugvalla sem eiga síðan erfitt með að sjá hvernig á að standa undir því að velta annaðhvort á flugfélögin sjálf eða farþegana.

Ég spyr hæstv. ráðherra bara beint út: Verður flugið til Sauðárkróks boðið út á næstu dögum? Eða verður samið um það á næstu dögum?

Ég held að ráðherra þurfi að svara því á næstu dögum hvað gerist í þessu máli, ekki megi ýta þessu máli inn í framtíðina eins og var gert í fyrra þegar menn héldu að flugið færi alveg að hefjast.

Það þarf skýr svör í þessum efnum. Það er líka óviðunandi, frú forseti, með svo mikilvæga þætti almannasamgangna sem flugið er, hvort sem það er ríkisstyrkta flugið eða hið almenna, að fólk skuli stöðugt búa við þessa miklu óvissu. Þetta er hluti af almannasamgöngukerfi landsins. Þetta er fyrir fólkið og þjónustuna ekkert síður mikilvægt en þjóðvegirnir.

Þess vegna held ég að skýr skilaboð þurfi að fást um að það verði staðið á bak við þetta hvað sem tautar og raular og þessum samgöngum haldið uppi.

Ég spyr sérstaklega og ítreka spurningu mína um næstu daga og ákvarðanir ráðherra varðandi (Forseti hringir.) Sauðárkróksflugið þannig að svör um það komi á allra næstu dögum en ekki nein undanbrögð.