141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[17:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Aðeins út af þessu með 15 metrana. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hægt er að smíða báta misbreiða og hafa þá mjög breiða, en þá væri auðvitað líka hægt að hafa ákveðin stærðarmörk á þeim því að bátarnir breytast töluvert þegar þeir eru orðnir 15 metrar. Við þekkjum það í dag að bátar sem eru 10–11 metra langir eru jafnvel með tveggja metra langa kassa fyrir aftan sig og það er heimilt í reglugerð að bátar séu að mestu 15 metrar að lengd. Það mundi þá leggjast af, þá mundum við fara að smíða báta eins og þeir eiga að vera en ekki með einhverjum útskotum. Ég tel það vera mjög skynsamlega leið.

Hæstv. ráðherra nefnir réttilega að menn safna saman veiðiheimildum á einstaka báta. Ég minni á að það er lægri þröskuldur í krókaaflamarkskerfinu en í aflamarkskerfinu, það er hámark á viðkomandi bátum.

Annað sem vert er að huga að í þessu máli og við sérstaka umræða hér áðan snýr að þeim vandamálum sem margar útgerðir kljást við gagnvart ýsuveiðum Þetta yrði kannski einn liður í því að menn gætu einmitt sótt á þau mið, þ.e. út fyrir grunnslóðina, til þess að reyna að ná í þorskinn sem viðkomandi skip hafa leyfi til að veiða. Þetta gæti verið ákveðin leið til þess.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að stækka takmörkunina í 15 metra og mæla þá bara eins og sagt er: Mesta lengd er 15 metrar. Þá væri ekkert svigrúm. Samkvæmt norrænum reglum um smíðar mega meira að segja ekki vera neinar undanþágur, sem klárlega eru í dag, bátarnir geta verið mun lengri þegar þeir eru með flotkassa og bretti eins og við þekkjum. Ég held að það væri skynsamlegra að hafa takmörkunina 15 metra.