141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu og koma inn á nokkur atriði sem hér hefur verið vakin athygli á. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég ber mikið traust til þeirra sem reka fyrirtækið sem hefur landslénið okkar .is á sinni könnu. Frá því að það var einkavætt í byrjun þessarar aldar hefur gengið á ýmsu. Á tímabili var þetta fyrirtæki skuldsett upp í rjáfur, um var að ræða skuldsetta yfirtöku. Þá komu fram ásakanir um að mikill arður væri tekinn út úr fyrirtækinu sem hefur að vissu leyti einokunarstöðu á íslenskum markaði. Ég hef talað sem hagsmunaaðili fyrir samfélagið en líka sem neytandi. Ég er viðskiptavinur með .is, eins og svo mörg okkar. Þetta er takmörkuð auðlind. Við viljum vera í viðskiptum við þetta fyrirtæki. Sá háttur er hafður á í flestum ríkjum að samfélagið hefur með einum eða öðrum hætti aðkomu að sínum landslénum. Það höfum við ekki eftir að þetta var einkavætt á sínum tíma.

Við stóðum frammi fyrir því fyrir nokkrum missirum, þegar við fórum að skoða framtíð þessa fyrirtækis, hvað ætti að gera. Ættum við að reyna að ná eignarhaldinu aftur til samfélagsins eða ættum við að búa því skilyrði sem væru arðvænleg í senn fyrir fyrirtækið og samfélagslegra þátta væri einnig gætt? Við tókum síðari kostinn.

Spurt er: Hvers vegna á að setja á þennan skatt? Hvers vegna á að hafa þetta eftirlit? Jú, það er einmitt vegna þessa og það er sérstaðan, að fyrirtæki sem nýtur í raun einokunarstöðu þurfi að sæta einhverju eftirliti, að það sé ekki tekinn út úr því óhóflegur arður, og við viljum gæta að öryggi þessarar stofnunar sem er ekki bara fyrirtæki heldur stofnun sem heyrir til innviða samfélagsins. Í Finnlandi fór til dæmis lénið sem þá hafði verið einkavætt í þrot. Það er nokkuð sem við viljum ekki láta gerast hér á landi.

Við reynum að gæta að hagsmunum notenda, neytenda, og við reynum líka að gæta að samfélagslegum öryggisatriðum. Menn spyrja hvers vegna aðeins lögráða einstaklingar eigi að hafa rétt til aðkomu að .is. Það er vegna þess að við viljum að þeir sem eru sjálfráðir, sem eru lögráða, komi þar að málum en ekki í gegnum einhverja aðra.

Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að þræða hinn gullna meðalveg að búa svo um að fyrirtækinu séu tryggð hagstæð rekstrarskilyrði en jafnframt sé gætt samfélagslegrar ábyrgðar. Þá vil ég heyra hvað það er sem menn telja vera ósanngjarnt í þessu efni. Ég hef ekki heyrt nein rök við þessa umræðu sem hníga í þá átt. Það sem við erum nákvæmlega að reyna að gera er að skapa lagaramma sem fyrirbyggir að það geti hent okkur sem gerðist í Finnlandi þar sem einkavætt fyrirtæki fór í þrot. Það viljum við ekki að gerist, annaðhvort með skuldsetningu eða með of mikilli arðtöku eins og gerðist hér á vissu tímabili, ekki núna, ekki í tíð núverandi eigenda þessa fyrirtækis sem hafa rekið það á mjög ábyrgan hátt og trúverðugan og af fagmennsku en það getur gerst ef við búum þessu fyrirtæki ekki þennan lagaramma.

Við erum einfaldlega að reyna að gæta samfélagslegra hagsmuna. Þá verða menn að færa fyrir því rök ef við erum að gera það með ósanngjörnum hætti. Ég tel ekki að við séum að gera það. Hvað er ósanngjarnt við það að tryggt sé að tengsl séu á milli landslénsins sem tengt er við Ísland og þeirra sem nýta sér lénið, lands okkar og samfélags? Er það ekki það sem við viljum tryggja? Hvað er að því? Þarna erum við að reyna að hafa hófsama gjaldtöku til þess að tryggja hag minn sem notanda, sem neytanda, sem viðskiptaaðila, það er það sem við erum að reyna að gera. Eru menn á móti því?

Við erum ekki að tala um hvert annað samkeppnisfyrirtæki á markaði. Við erum að tala um fyrirtæki sem gegnir samfélagslegu hlutverki, Íslandslénið. Ég hlusta eftir þeim jákvæðu röddum sem hér hafa heyrst. Ég veit að menn vilja að sjálfsögðu búa landsléninu lagaumgjörð sem gerir þetta tvennt í senn, tryggir rekstrarstöðu þessa fyrirtækis og um leið samfélagslega hagsmuni.

Ég vona að okkur auðnist að afgreiða þetta frumvarp í góðri sátt áður en þingi lýkur í vor.