141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

sveitarstjórnarlög.

449. mál
[15:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði raunar að koma í andsvar við hæstv. innanríkisráðherra en ég er svolítill grænjaxl í þessum skeytasendingum þannig að mér mistókst eitthvað. Ég beini orðum til hv. þm. Lúðvíks Geirssonar í staðinn.

Rafrænar kosningar eru ekki einungis framtíðin, þær eru nútíminn. Við sjáum að í þessari viku á sér stað stór rafræn kosning um formannskjör í Samfylkingunni. Það er mjög mikilvægt að þróa og greiða fyrir farvegi þessara mála. Við munum með þessum hætti stórauka aðkomu og áhuga íbúa á þátttöku í sínu samfélagi og ekki síst gerum við ýmsum hópum, öldruðum og hreyfihömluðum, býsna mikið auðveldara að tjá sig og skipta sér af málefnum.

Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu hérna á Íslandi. 95% Íslendinga hafa aðgang að neti og geta greitt atkvæði gegnum símana sína. Sem sveitarstjórnarmaður fagna ég þessu. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort við stígum nógu stórt skref. Ég þekki nú illa mitt heimafólk ef það verður fljótt að hringja í innanríkisráðherra og sækja um heimild til þess að fá leyfi til að breyta um vinnuaðferðir. Hefðum við ekki bara átt að ýta mönnum út í þetta óbeðnum? Ég spyr fyrrverandi bæjarstjórann að því.