141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

barnalög.

323. mál
[14:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta hljómar allt mjög vel og mér líst að mörgu leyti ágætlega á þetta. Málið er eflaust réttarbót en það vöknuðu nokkrar spurningar og mig langar að varpa fram a.m.k. einni.

Nú er það svo að lífið er alltaf að verða flóknara og flóknara og menn verða ekki foreldrar einungis með hinum hefðbundna hætti. Við þekkjum gjafasæði, gjafaegg og á síðasta þingi var rætt frumvarp til laga um staðgöngumæðrun og annað slíkt. En kjarninn í þessum barnarétti er auðvitað réttur barnsins til að þekkja foreldra sína, þá væntanlega bæði uppeldisforeldra og líffræðilega foreldra. Málið getur því orðið býsna flókið. Ég velti því fyrir mér hvort menn eru búnir að fara ítarlega í saumana á þessu og afleiðingum þessa, ef menn greiða síðan, við skulum segja fyrir lögum um staðgöngumæðrun í framtíðinni, hvort afleiðing til dæmis þessa sé mönnum ljós.