141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

dómstólar o.fl.

12. mál
[16:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál hefur tekið afar jákvæðum breytingum í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar. Það lýtur að því og snertir það að við munum sjá fram á öruggara umhverfi, skilvirkara og gegnsærra varðandi endurupptöku mála í kerfinu.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem segir í nefndarálitinu og snertir millidómstigið. Ljóst var að við meðferð málsins kom mikilvægi millidómstigs, þ.e. að setja það á laggirnar, bersýnilega fram. Það liggur allt fyrir. Starfsskýrslur liggja fyrir sem leiðbeina hæstv. innanríkisráðherra mjög skýrt hvernig eigi að haga fyrirkomulaginu varðandi millidómstig. Okkur er ekkert að vanbúnaði að fara í það réttlætismál, lýðræðismál sem snertir það að koma á þessu þriðja dómstigi á Íslandi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka alvarlega þær ábendingar sem eru settar fram í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar.