141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:39]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Forseti. Ég vil taka fram í upphafi máls míns að skoðanir mínar á því að lögbinda eigi náttúru- og auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána eru óbreyttar frá því að við áttum samleið, algjörlega óbreyttar. Ef hv. þingmaður hefði hlustað grannt eftir ræðu minni hefði hún mátt skilja það. Ég tel mjög mikilvægt að þær greinar komi inn.

Ég sagði líka að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði gert breytingar á greininni sem ég taldi um margt til bóta en þyrfti nánari skoðunar við hvað varðar orðalag og fleira. Þannig að ég ítreka það, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem veit að ég er umhverfissinni og eindreginn stuðningsmaður þess að sett verði ákvæði um auðlindir, náttúru o.fl. í stjórnarskrána.