141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:12]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið í umræðuna. Eins og ég nefndi ítrekað í ræðu minni tel ég mjög mikilvægt að fá þá umsögn og þá yfirferð sem Feneyjanefndin mun gefa um þetta mál. Hún fékk ákveðið verkefni að okkar ósk um að skoða sérstaklega stjórnarskipunarhluta frumvarpsins, Alþingi, ríkisstjórn, forseta og hvernig samspilið er í þeim efnum.

Nefndin fór yfir frumvarpið að ég best veit í heild sinni og mun þá væntanlega gefa álit sitt á öðrum þeim þáttum sem hún telur ástæðu til. En við töldum rétt, og það hefur verið lagt upp þannig, að taka málið inn til umræðu á þeim grunni sem við höfum getað farið yfir að öðru leyti, og geyma þennan þátt. Þess vegna eru engar breytingartillögur gerðar við þau atriði fyrr en við höfum þá umsögn þannig að við höfum allt á borði til að vinna það endanlega.