141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu skiptir álit allra fræðimanna máli, ég vil ekki að hv. þingmaður misskilji mig á þann veg að ég hafi verið að gefa til kynna að sumir fræðimenn séu betri en aðrir. Það sem ég var að benda á er að við höfum í landinu tiltekna stjórnskipunarsérfræðinga og ég hlusta mjög grannt eftir því þegar þeir koma með gagnrýni sína fram. Það er mín skoðun að þegar stjórnskipunarsérfræðingarnir koma og ræða efni stjórnarskrárinnar sé ástæða til að líta svo á að orð þeirra hafi meira vægi af því að þeir hafa hreinlega meiri kunnáttu í þessu en aðrir, það er ósköp eðlilegt og ég held að við hljótum öll að vera sammála um það.

Ég hef ekki lesið þetta álit frá Oddnýju Mjöll Arnardóttur. Ég sá það í símanum hjá mér að við erum búin að fá það, ég hef ekki kynnt mér efni þess. Að sjálfsögðu veit ég að hún er líka mikilvægur sérfræðingur á þessu sviði. Ég bendi hins vegar á, og ég vil hafa sagt það, að Björg Thorarensen hefur sett fram mikla gagnrýni, hún hefur gert það. Ég veit alveg að meiri hlutinn hefur í einhverjum einstökum tilvikum tekið tillit til einhvers af því sem hún hefur sagt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þær ábendingar sem hún kemur fram með, meðal annars um óskýrleika tillagnanna, séu þess eðlis að fara verði rækilega yfir það hvað það þýðir. Þá erum við líka að tala, herra forseti, um lögskýringargögnin til dæmis. Við þekkjum þá gagnrýni sem þar hefur komið fram, bæði af hennar hálfu og líka frá þeim sem voru í sérfræðingahópnum, Oddný Mjöll Arnardóttir var ein þeirra sem settu fram gagnrýni og gerði bragarbót á. Þetta er allt saman liður í því að bæta þau ákvæði sem þarna eru undir og sýna fram á að það er svo fjarri því að málið sé tilbúið, það er svo fjarri því og það er það sem ég er að draga fram. Það er sú afstaða sem ég hef haft í þessu máli.